,,Tugþúsundir lánþega eiga rétt á skaðabótum! Stærsta skaðabótamál Íslandssögunnar verður dómtekið miðvikudaginn 30. janúar.“ Þannig hljómar fréttatilkynning frá Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðra neytendalána.
,,…hvort sem Hæstiréttur er ábyrgur fyrir brotinu eða Alþingi, hlýtur niðurstaðan að vera sú sama: Brotið var á neytendum og ríkið er ábyrgt á hvorn veginn sem er.“ ,,Þegar niðurstaða er komin í þetta stærsta hagsmunamál íslenskra heimila, gerum við ráð fyrir að verðtrygging á lánum heimilanna verði afnumin á Íslandi þannig að láns- og vaxtakjör verði hér sambærileg og í þeim löndum sem við miðum okkur almennt við.“
Málflutningur í skaðabótamáli gegn Íslenska ríkinu, nr. E-514/2018, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur miðvikudaginn 30. janúar kl. 13:15 í dómsal 201.
,,Nú er loksins komið að málflutningi í skaðabótamáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðra neytendalána gegn íslenska ríkinu. Það er óumdeilt og var staðfest af EFTA dómstólnum árið 2014, að reglur um upplýsingagjöf til neytenda sem tóku verðtryggð lán, voru þverbrotnar á árunum 1994-2013, þar á meðal í húsnæðislánum frá 2001. Öll verðtryggð neytendalán sem voru veitt á þessu tímabili eru því undir í málinu, en ljóst er að þau skipta tugum þúsunda.
Eftir dóm EFTA dómstólsins árið 2014 um að brotið hefði verið á neytendum, kom Hæstiréttur Íslands sér undan því að úrskurða neytendum í vil með því að vísa ábyrgðinni yfir á Alþingi. Sá dómur gerði þó ekki annað en að tefja málið því hvort sem Hæstiréttur er ábyrgur fyrir brotinu eða Alþingi, hlýtur niðurstaðan að vera sú sama: Brotið var á neytendum og ríkið er ábyrgt á hvorn veginn sem er.
Að ríkið sé orðið skaðabótaskylt í staðinn fyrir bankana er ekki það sem stefnt var að í byrjun, fyrir allt of mörgum árum síðan, þegar málið var höfðað gegn lánveitanda, en fyrst svo er komið má ekki selja bankana frá ríkinu fyrr en búið er að gera þetta mál upp við lántakendur.
Þegar niðurstaða er komin í þetta stærsta hagsmunamál íslenskra heimila, gerum við ráð fyrir að verðtrygging á lánum heimilanna verði afnumin á Íslandi þannig að láns- og vaxtakjör verði hér sambærileg og í þeim löndum sem við miðum okkur almennt við. Enda þekkist verðtrygging ekki á lánum heimilanna sem megin lánakostur í þessum löndum. Annars vegar vita stjórnvöld þeirra landa að ef verðtrygging yrði sett almennt á lán heimilanna myndu hagkerfi þeirra hrynja og aðalstjórntæki seðlabanka þeirra ekki virka. Hins vegar myndi almenningur í þessum löndum ALDREI láta bjóða sér verðtryggð lán til heimila með okurvöxtum þar ofan á.
Þetta er kjarni málsins, eins og var nánar rakið í fréttatilkynningu sem var upphaflega send fjölmiðlum 14. nóvember sl. áður en aðalmeðferð málsins var frestað af dómskerfinu.“
Tengt efni:
https://www.fti.is/2019/01/13/kaera-hefur-verid-send-til-mannrettindadomstols-evropu-vegna-gengistryggdra-lana/