Dóra Björt Guðjónsdóttir, Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur
Ályktun: Á sameiginlegum fundi stjórna Íbúasamtaka Miðborgar, Vesturbæjar og 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) var rætt um hverfisráð og arftaka þeirra, borgarhlutaráð samkvæmt tillögum stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð frá því í nóvember 2018. Fundurinn lýsir yfir furðu sinni á því hve hægt gengur að koma þessari skipan á og skorar á borgarstjórn að ljúka þessari vinnu sem fyrst sem hefur það að leiðarljósi að auka skilvirkni, eflingu lýðræðis og bætt samstarf við íbúa.
Greinargerð: Tíu hverfisráð hafa verið starfandi í Reykjavík frá árinu 2008 og hafa þau verið skipuð pólitískt en íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hafa setið í þeim sem áheyrnarfulltrúar. Á seinni árum hefur sú gagnrýni orðið hávær að hverfisráðin gerðu ekki það gagn sem þeim væri ætlað að gera fyrir hverfin, að þau kæmu málum hverfisins ekki fram og væru í litlu sambandi við grasrótina. Eitt af verkefnum Stjórnkerfis og lýðræðisráðs sem starfaði frá 2014-2018 var að koma með tillögur um úrbætur og eflingu hverfisráðanna og drög að þeim skiluðu sér í lok kjörtímabilsins.
Þann 19. júní 2018 frestaði borgarstjórn kosningu í hverfisráð til áramóta 2018-2019 og ákvað jafnframt að leysa upp sitjandi hverfisráð og engin hverfisráð hafa verið starfandi síðan. Stofnaður var stýrihópur um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð og hélt stýrihópurinn opna fundi með íbúum í öllum hverfum borgarinnar þar sem íbúar og aðrir hagsmunaaðilar voru hvattir til að tjá sína upplifun af hverfisráðum og starfsemi þeirra. Fundirnir voru haldnir á tímabilinu 3. október til 7. nóvember og fljótlega eftir það voru drög að skýrslu og tillögum hópsins birt og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með umsagnir til 30. nóvember.
Síðan hefur ekkert gerst og því skora Íbúasamtök Miðborgar, Vesturbæjar og 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) á borgarstjórn að koma tafarlaust á þeim mikilvæga samráðsvettvangi við borgarana sem borgarhlutaráðin hafa alla burði til að verða.
F.h. Íbúasamtaka Miðborgar
Benóný Ægisson
F.h. Íbúasamtaka Vesturbæjar
Guðmundur Albert Harðarson
F.h. Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar)
Karl Thoroddsen