Með frétt þann 28. febrúar sl. veitti Samkeppniseftirlitið hverjum þeim sem hagsmuni eða áhuga hefði færi á því að koma á framfæri umsögnum, athugasemdum og/eða sjónarmiðum vegna kaupa Síldarvinnslunnar á helmingshlut í Ice Fresh Seafood af Samherja.
Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt samrunaaðilum að nauðsynlegt sé að virkja frekari fresti til rannsóknar málsins og athugunar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Síldarvinnslan og Samherji eru bæði starfandi á sömu mörkuðum sem sameinast um eitt svið í starfsemi sinni eða eitt sölustig í virðiskeðju sjávarafurða með samrunanum.
Þá hafi samruninn möguleg lóðrétt áhrif vegna aðgengis annarra fiskvinnsla að hráefni annars vegar og annarra útgerðarfyrirtækja eða mögulegra keppinauta að aflahlutdeildum hins vegar þar sem aðgangshindranir virðast til staðar. Þá hefur athugun á eignar- og stjórnunarlegum tengslum fyrirtækjanna og hvort breytingar á yfirráðum séu víðfeðmari en samrunaskrá gefur til kynna, áhrif á umfang mögulegra samkeppnislegra áhrifa samrunans á viðkomandi mörkuðum. Loks hefur aðeins hluti þeirra fyrirtækja, aðila og félaga sem Samkeppniseftirlitið óskaði umsagnar og upplýsinga frá, svarað beiðni eftirlitsins, og hyggst stofnunin framlengja frest þeirra til upplýsingagjafar.
Samkeppniseftirlitið hefur einnig ákveðið að framlengja almennt umsagnarferli til 9. apríl nk. Umsagnir skulu berast á gogn@samkeppni.is