2.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 27. janúar 2023
Auglýsing

Samgöngur og fjarskipti, sveitarstjórna- og byggðamál, lýðræðisefling – Ályktun Miðflokksins

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img
Miðflokkurinn hélt sitt fyrsta landsþing um síðustu helgi og lagðar voru fram ályktanir í hinum ýmsu málum þ.á.m. samgöngumálum og öllu sem að þeim tengjast, enda hefur flokkurinn frá upphafi lýst því yfir að áherslur hans séu hagsmunir landsins alls

,,Hefja skal arðbæra sókn í byggðamálum þar sem landið allt er undir og framlag atvinnugreina til samfélagsins verður metið og virt.“ Segir m.a. í ályktun frá landsþinginu.
Á landsþinginu var samþykkt ályktun um að hefja þyrfti arðbæra sókn í byggðamálum, byggja upp flugvelli víða um land og bæta úr vanda sem er í samgöngumálum um land allt og fjarskiptamálum.
Í raun hefur það verið skýr krafa fólks að þessi mál verði bætt og þau gerð viðunandi. Og það er óviðunandi að ríkið sem að hefur miklar tekjur af ferðamönnum, skuli ekki leggja til meira fjármagn til málaflokksins. Eins og birt hefur verið í fjármálaáætlun, þá kemur ekki fram í henni nein sókn í málaflokknum, einungis er gert ráð fyrir fjármagni til brýnustu úrbóta til þess að halda sjó, þegar að kemur að þessum brýna og þjóðhagslega arðbæra málaflokki sem að snýr bæði beint að þjóðinni sjálfri og svo vegna mikils fjölda ferðamanna
Samgöngur og fjarskipti, sveitarstjórna- og byggðamál, lýðræðisefling. Ályktun Miðflokksin
Samgöngur, fjarskipti og orka eru undirstaða nútíma samfélags á landinu öllu. Séu þessar grunnstoðir í lagi, kemur annað að sjálfu sér. Of hæg uppbygging innviða á undanförnum árum hefur leitt til þess að vegakerfið hefur verulega látið á sjá og víða að hruni komið. Auka þarf varanlega fjárframlög til málaflokksins og tryggja nægjanlegt fjármagn hverju sinni. Fjárfesting í vegakerfinu, stuðningur við innanlandsflug og flugvelli, ásamt uppbyggingu í höfnum landsins mun styðja við áframhaldandi hagvöxt.
Mikilvægi fjarskiptamála hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og áratugum og er nú svo komið að góð fjarskipti og öflugar nettengingar eru forsenda þess að fólk geti valið sér búsetu hvar á landi sem er. Tryggja þarf hraða uppbyggingu góðs fjarskiptanets um allt land, til að auka gæði búsetu og möguleika allra landsmanna til atvinnusköpunar jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að tekjur af umferð og ökutækjum verði í stórauknum mæli eyrnamerkt til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Sértæk verkefnafjármögnun verði ekki til þess að hækka heildarálögur á ökutæki og gerir að tillögu sinni að horfið verði frá hugmyndum um gjaldtöku á vegakerfið en setur sig ekki á móti einkaframkvæmdum á vegasamgöngubótum þar sem aðrar leiðir verða einnig í boði.

Miðflokkurinn leggur einnig til að ráðist verði strax í að auka öryggi á malarvegum, þar sem bundið slitlag verði lagt á vegi í núverandi veglínu þeirra, hugsanlega með lækkuðum hámarkshraða þar sem við á.  Hér er horft til fáfarnari safn- og tengivega, sem ólíklegt er að verði fjármagnaðir í fyrirsjáanlegri framtíð verði þeir byggðir upp samkvæmt ítrustu stöðlum. Skipuleggja þarf stofnæðar sem tengja saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með bestun á umferðarflæði og öryggi vegfarenda að leiðarljósi.
Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á að hann vill hraða byggingu Sundabrautar til að bæta umferðarflæði og umferðaröryggi á Höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt lýsir flokkurinn fullum stuðningi við sérlög um vegalagningu um Teigsskóg.
Flug- og ferjuleiðir eigi að vera skilgreindar sem almenningssamgöngur og hluti af þjóðvegakerfinu. Mikilvægt er að samningum um þjónustu á ríkisstyrktum ferjuleiðum sé þannig fyrir komið að þjónustufall heyri til undantekninga og að rekstraraðilar hafi ekki hag af því að siglingar stöðvist um nokkurt skeið. Fjölgun stórra skemmtiferðaskipa, um leið og fiskiskipaflotinn vex, ýtir undir þörf á því að hafnir landsins séu betur tækjum búnar til að þjónusta slík skip.

Miðflokkurinn leggur til í ályktun sinni, að þegar verði ráðist í það verk að marka flug- og flugvallastefnu til framtíðar.  Heildstæð stefnumótun fyrir þennan mikilvæga málaflokk hefur ekki verið unnin.  Í slíkri stefnumótun þarf að tengja saman mikilvægi flugsins fyrir þjóðina alla, efnahagslífið og ferðaþjónustuna.
Millilanda- og varaflugvellir gegna mikilvægu hlutverki í efnahagskerfi þjóðarinnar, um leið og innanlandsflugvellir skipta miklu máli fyrir tengingar landsbyggðar við höfuðborgina. Sumir þeirra gegna að auki hlutverki varaflugvalla fyrir Keflavíkurflugvöll.
Gera þarf áætlun um viðhald og uppbyggingu á flugvöllum á Íslandi til að styrkja smærri byggðir og uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins. Nauðsynlegt er að Fjárlaganefnd samþykki fjármagn til 5 ára í senn í stað eins árs. Tryggja skal fjármagn í samgönguáætlun.
Kostnaður við innanlandsflug er of hár, að hluta til vegna mikillar skattlagningar á flugstarfsemina.  Skattlagningu þessa þarf að taka til endurskoðunar. Jafna skal flutningskostnað flugvélaeldsneytis og tryggja að verð og aðgengi að eldsneyti eða önnur aðstaða sé ekki hamlandi þáttur í opnun flugleiða til staða á landsbyggðinni.
Tryggja skal að Isavia þjóni mikilvægu hlutverki sínu gagnvart uppbyggingu fluginnviða. Endurskoða þarf hlutverk Isavia og tryggja að tekjur af starfseminni nýtist einnig til uppbyggingar innanlandsflugvalla, nýrra fluggátta og aðstöðu um land allt.
Stækka þarf flughlöðin á Akureyri og Egilstöðum sem fyrst til að þeir flugvellir geti uppfyllt öryggishlutverk sitt sem varaflugvellir ásamt Reykjavíkurflugvelli. Þannig geta þeir sameiginlega tekið við öllum þeim þotum sem fljúga inn á Keflavíkurflugvöll þegar hann lokast snögglega.
Byggja þarf upp flugvelli eins og Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur og Fagurhólsmýri svo að þeir séu hæfir til að taka við stærri flugvélum og sjúkraflugvélum. Það er nauðsynlegt gagnvart náttúruvá, stórslysum og aukningu ferðamanna. Með þessum hætti væri hægt að bregðast við fyrr og betur ef eldgos eiga sér stað og einnig til að létta á vegum landsins sem eru komnir að þolmörkum.
Hluti af uppbyggingu flugvalla er að bæta við European Geostationary Navigation Overlay Service (EGNOS) leiðréttingarstöðvum á Grænlandi, þannig er hægt sé að setja upp GPS nákvæmnisaðflug á öllum flugvöllum á Íslandi. Það er ódýrari og betri kostur en áframhaldandi rekstur núverandi aðflugskerfa.
Reykjavíkurflugvöllur skal vera áfram hjartað í Vatnsmýrinni sem aðal samgönguæð innanlandsflugs, sjúkraflugs og almannaflugs sem tenging landsbyggðar og höfuðborgar í samræmi við vilja yfirgnæfandi meirihluta landsmanna. Þar skal byggð upp samgöngumiðstöð sem tengir innanlandsflug við vegasamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Opna þarf neyðarbrautina á ný til að tryggja aðgengi allra landsmanna að sjúkrahússþjónustu. Veturinn 2016-2017 komu upp veðurfarslegar aðstæður í 25 daga þar sem neyðarbrautin var eina nothæfa flugbrautin með tilliti til sjúkraflutninga samkvæmt Öryggisnefnd Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna (ÖFÍA).
Bæta þarf aðstöðu flugskóla á Íslandi, efla þarf nám flugmanna, flugvirkja, þjónustuliða og flugumferðarstjóra. Á Reykjavíkurflugvelli þarf að efla samstarf við háskólana í nágrenni flugvallarins. Tryggja þarf jafnan aðgang þessara námsstétta að LÍN til jafns við annað framhaldsnám. Þetta er nauðsynlegt til að styðja við uppbyggingu íslenskra flugfélaga.
Styrkja þarf rekstur flugdeildar Landhelgisgæslunnar og dreifa starfsstöðvum um landið, bæði á Norður- og Austurland auk Reykjavíkur.

Hefja skal arðbæra sókn í byggðamálum þar sem landið allt er undir og framlag atvinnugreina til samfélagsins verður metið og virt. Framlag þeirra til byggðamála er mikið og þarf að skoða í samhengi við rekstrar- og samkeppnisumhverfi viðkomandi greina.
Ríkisvaldinu skal gert skylt að uppfylla ákveðið þjónustustig um allt land. Tryggja skal að verkefnum sem færð eru frá ríkinu til sveitarfélaga fylgi nægt fé, svo að þau dragi ekki fjármagn frá þeim verkefnum sveitarfélaga sem fyrir eru. Fjárfestingum verði beint með viðeigandi hvötum að efnahagslega kaldari svæðum og álagi létt á þenslusvæðum. Rannsóknar- og þróunarsjóðir verði einnig að hluta merktir nýsköpun á landsbyggðinni.
Styðja skal við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með fjölgun opinberra starfa og verkefna, t.d. með að þeim nýju störf verði beint út á land. Stuðningur verði veittur við sameiningu sveitarfélaga ef það hefur augljósa kosti meðal annars með tilliti til rekstrar og skipulags svæða.
Miðflokkurinn styður aukna þátttöku íbúanna í ákvarðanatöku með beinu lýðræði í sveitarstjórnarmálum og á landsvísu. Einfalda þarf ákvæði um íbúalýðræði í sveitarfélögum og nauðsynlegt er að setja skýr ákvæði um framkvæmd og gildi þjóðaratkvæðagreiðslna í stjórnarskrá. Miðflokkurinn vill að ákvæði um þjóðarfrumkvæði verði sett í stjórnarskrá.