Fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu í dag að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands verði falið að úthluta 450 milljóna kr. stuðningi ríkisins til íþróttahreyfingarinnar til þess að mæta áhrifum COVID-19. Samningur þess efnis var undirritaður í gær. Stuðningur þessi byggir á þingsályktun um fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins, sem samþykkt var á Alþingi þann 30. mars sl.
„Markmið stuðnings stjórnvalda er að draga úr afleiðingum COVID-19 á íþróttalíf í landinu og tryggja eins og kostur er að fjölbreytt íþróttaiðkun geti farið fram – það er okkur öllum mikilvægt, ekki síst út frá lýðheilsusjónarmiðum og forvarnargildi íþrótta. Viðmið um úthlutun þessarar styrkja mun taka mið af stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum og byggja á sjónarmiðum jafnræðis, kynjajafnréttis og gagnsæis. Þá verður sérstaklega hugað að brottfalli úr íþróttum og verkefnum sem hvetja viðkvæma hópa til íþróttaiðkunar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Úthlutun mun bæði snúa að almennum og sértækum aðgerðum. Almennar aðgerðir munu taka mið af reiknireglu og koma til framkvæmda strax. Sértækar aðgerðir felast í að fjármagni verði úthlutað vegna sérstakra viðburða, móta og keppnishalds sem ekki getur orðið af vegna COVID-19. Auglýst verður á vef ÍSÍ eftir umsóknum vegna þessa. ÍSÍ mun síðan fylgjast náið með starfsemi íþróttafélaga og upplýsa ráðuneytið með reglubundnum hætti um áhrif þeirra aðgerða sem ráðist verður í.
Að auki verður til umfjöllunar á Alþingi tillaga um 600 milljóna kr. aukafjárveitingu til sveitarfélaga vegna tímabundins stuðnings við fjölskyldur í erfiðri stöðu, svo tryggja megi jöfn tækifæri barna og ungmenna til íþrótta- og tómstundastarfs í sumar.
Í morgun hélt forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, fjarfund með fulltrúum sambandsaðila ÍSÍ (íþróttahéruð og sérsambönd) þar sem kynntar voru tillögur vinnuhóps ÍSÍ um úthlutun þeirra fjármuna sem íþróttahreyfingin hefur fengið frá ríkinu vegna Covid-19.
Á mynd: Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Lárus Blöndal forseti ÍSÍ.