Tilkynnt var um umferðarslys á Geirsgötu en þar var ekið á hjólreiðamann, kvartaði hann undan verk í baki og var færður á sjúkrahús til aðhlynningar.
Dópaður á 190 km/klst
Þá var tilkynnt um ofsaakstur bifreiðar á leið til Hafnarfjarðar en lögreglan á Suðurnesjum hafði mælt ökuhraða bifreiðarinnar nokkru áður á 190 km/klst og fylgdi henni eftir. Bifreiðinni var svo ekið inn til Hafnarfjarðar á miklum hraða en þar náði ökumaður að stinga lögreglu af um stund.
Bifreiðin fannst nokkru síðar í Hafnarfirði en var þá mannlaus en ökumaðurinn fannst nokkru síðar, á gangi skammt frá. Ökumaðurinn var handtekinn og færður að lögreglustöð en þar kom í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna. Mikill viðbúnaður var að hálfu lögreglu en um stórhættulegt tilvik var að ræða.
Flugslys
Flugslys varð á athafnarsvæði Fisfélagsins við Hólmsheiðarveg. Atvikið átti sér stað er fisvél fór í loftið, þegar komið var í 300 fet stoppaði mótor vélarinnar. Flugmaðurinn náði ekki að koma vélinni í gang aftur og varð því að nauðlenda henni. Í lendingu lenti vélin á steyptum kanti, valt og endaði á toppnum. Flugmaður kvartaði undan verki í fæti en farþega sakaði ekki.
Fíkniefnasala úr bifreið
Tilkynnt var um sölu fíkniefna úr bifreið í efri byggðum Reykjavíkur. Tveir aðilar voru handteknir er þeir voru að ganga frá bifreiðinni. Við leit í bifreiðinni fundust ætluð fíkniefni til sölu.