Fimm flugumferðarstjórum hjá Isavia ANS, sem sinnir flugleiðsögu á Íslandi og yfir Norður-Atlantshafi, hefur verið sagt upp störfum. Aðrir fimm fá áminningu vegna brota á reglum um skráningu á tímum um setu í vinnustöðu.
Í tilkynningu frá Isavia í morgun segir að við innri skoðun hafi komið í ljós að fimm flugumferðarstjórar voru með skráða tíma í vinnustöðu sem aðrir höfðu unnið. Það þýðir að umræddir starfsmenn höfðu ekki uppfyllt skilyrði um lágmarks tímafjölda, og því ekki með gild leyfi til að sinna flugumferðarstjórn.
„Isavia ANS lítur á þetta sem alvarleg trúnaðarbrot í starfi og hefur gripið til viðeigandi aðgerða. Þeim fimm flugumferðarstjórum sem ekki uppfylltu kröfur um lágmarkstíma í vinnustöðu hefur verið sagt upp störfum og öðrum sem tóku þátt í brotunum með þeim verður ýmist veitt áminning eða alvarlegt tiltal eftir umfangi aðkomu þeirra að málinu,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að eftir ítarlega skoðun sé ljóst að brotin nái eingöngu til afmarkaðs hóps flugumferðarstjóra, en hátt í 300 manns starfa hjá fyrirtækinu.
Málið er enn til rannsóknar hjá Samgöngustofu.
„Mjög skýr lög og reglur gilda um flugleiðsögu og hæfi flugumferðarstjóra sem Samgöngustofa hefur eftirlit með. Allt miðar þetta að því að tryggja öryggi flugleiðsögu og traust á henni.“