Hugleiðingar veðurfræðings
Lægðin sem olli austan stormi við suðurströndina á þriðjudag er þaulsetinn og ræður enn veðrinu hjá okkur í dag. Nú þegar þetta er skrifað snemma á föstudagsmorgni er miðja lægðarinnar yfir landinu. Lægðin er orðin gömul og þrýstiflatneskja er í miðju hennar, stundum er þá talað um flatbotna lægð. Það þýðir að vindur nær sér ekki á strik í dag, vindátt breytileg og hraðinn 3-8 m/s. Enn er þó nægur raki eftir í lægðinni og því má búast við vætu nokkuð víða á landinu í dag og líklega verður úrkoman skúrakennd þegar líður á daginn.
Á morgun þokast miðja lægðarinnar til suðausturs. Það þýðir að það gengur í norðaustan 5-13 m/s á norðanverðu landinu með dálítilli ringingu. Hægari vindur sunnantil og skúrir, sums staðar efnismiklar dempur síðdegis. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.
Á sunnudag og dagana þar á eftir er síðan útlit fyrir breytt veðurlag þegar gengur í ákveðna norðlæga átt. Það þýðir að veðrið á landinu verður tvískipt. Norðan- og austanlands má búast við vætu með köflum og svölu veðri. Sunnan heiða er útlit fyrir bjart veður og hita kringum 18 stig þegar best lætur.
Veðurhorfur á landinu
Norðaustlæg eða breytileg átt 5-10 m/s, en heldur hvassara um landið norðvestanvert á morgun. Skúrir og hiti 6 til 15 stig, mildast á Suðurlandi.
Spá gerð: 30.06.2023 08:56. Gildir til: 02.07.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Norðan og norðaustan 5-13 m/s og súld eða dálítil rigning, en þurrt að mestu á Suður- og Vesturlandi. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast sunnan heiða.
Á mánudag:
Norðlæg átt og bjart veður á Suður- og Vesturlandi, annars skýjað en úrkomulítið. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Norðlæg átt og rigning með köflum norðan- og austanlands, en þurrt að mestu og bjart með köflum um landið suðvestanvert. Kólnar lítið eitt.
Spá gerð: 30.06.2023 07:54. Gildir til: 07.07.2023 12:00.