Kosningu lauk í Norðuráli seinnipartinn í gær um ótímabundið yfirvinnubann sem hefst 1. september og verkfall sem hefst 1. desember. Kosningin náði til félagsmanna sem starfa hjá Norðuráli og er skemmst frá því að segja að 97% greiddu atkvæði með yfirvinnubanni og verkfalli.
Kosningin fór með eftirfarandi hætti: Á kjörskrá: 361. Þeir sem kusu: 100 eða 27,7%
Já: 97 eða 97%
Nei: 2 eða 2%
Auðir: 1 eða 1%
Á þessu sést að kosningin var gjörsamlega afgerandi og vilji starfsmanna hvellskýr en þeir sætta sig ekki við að fyrirtækið ætli sér að bjóða hækkanir á grunnlaunum sem eru langt undir því sem samið var um í lífskjarasamningum.
Það liggur fyrir í hverju ágreiningurinn milli deiluaðila kristallast en það liggur fyrir að forsvarsmenn Norðuráls hafni nánast eitt allra fyrirtækja á Íslandi að hækka laun eins og kveðið er á um í lífskjarasamningum. Miðað við þær forsendur sem fram koma í tilboði Norðuráls til stéttarfélaganna þá býður félagið eftirfarandi launahækkanir á byrjenda launataxtann næstu 3 árin:
1 janúar 2020 15.118 kr.
1 janúar 2021 17.829 kr.
1 janúar 2022 13.544 kr.
Samtals: 46.491 kr.
Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar að byrjenda launataxti starfsmanna hækki eins og gert var í lífskjarasamningum og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera án vandræða. En lífskjarasamningurinn tryggir eftirfarandi taxtahækkanir auk tryggingu fyrir svokölluðum hagvaxtarauka. En hækkanir lífskjarasamningsins eru eftirfarandi og eru kröfur VLFA og VR:
1 janúar 2020 24.000 kr.
1 janúar 2021 24.000 kr.
1 janúar 2022 25.000 kr.
Samtals: 73.000 kr.
Að hugsa sér að Norðurál skuli voga sé að hafna því að hækka launataxta sinna starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og bjóða þess í stað starfsmönnum að byrjendalaunataxti hækki um 26.509 kr. minna en hækkanir í lífskjarasamningum kveður á um eða sem nemur 57% lægri taxtahækkun, en allur vinnumarkaðurinn hefur samþykkt að gera. Rétt er að upplýsa að rekstur Norðuráls gengur mjög vel um þessar mundir þrátt fyrir COVID 19.
Þessi afdráttarlausa niðurstaða um kosningu um yfirvinnubann og verkfall er gott veganesti fyrir Verkalýðsfélag Akraness í þeim átökum sem framundan eru við fyrirtækið.
Formaður VLFA hefur sent niðurstöðu úr kosningunni til forstjóra Norðuráls, fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara og ef ekki semst fyrir 1. september mun ótímabundið yfirvinnubann hefjast og í framhaldi af því mun verkfall hefjast 1. desember ef ekki verður enn búið að semja þá. En verkafallsaðgerðir byggjast á grein 8.11.2 í kjarasamningi aðila.
Fréttin birtist fyrst á vef Verkalýðsfélags Akraness