Neytendasamtökin telja mikilvægt að eftirlit með frum- og milliinnheimtustarfsemi sé allt á sömu hendi, þ.e. hjá Fjármálaeftirlitinu óháð því hver sjái um innheimtuna. Byggist sú skoðun fyrst og fremst á því að eftirlit með innheimtustarfsemi verði að vera raunhæft og virkt.
Í dag er staðan þannig að innheimtufélög í eigu lögmanna eru að nafninu til undir eftirliti Lögmannafélags Íslands (LMFÍ). Neytendasamtökin geta fullyrt að eftirlit LMFÍ með innheimtufélögum í eigu lögmanna er gagnslaust og úrræðin bitlaus. LMFÍ framkvæmir ekki frumkvæðisrannsóknir og hefur ekki valdheimildir til að stöðva innheimtu sem brýtur gegn lögum.
Telji einhver á sér brotið er eina úrræði viðkomandi að senda kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og rökstyðja mál sitt gegn lögmanni líkt og um málflutning sé að ræða. Þar er stórfelldur aðstöðumunur kvartanda sem jafnan er leikmaður, annars vegar og þess sem kvartað er yfir, sem jafnan er félagsmaður í Lögmannafélaginu og ætti að hafa yfirburðaþekkingu á lögum og reglum sem gilda.
Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að lögmaður hafi brotið gegn innheimtulögum, á sá sem sendi málið fyrir nefndina, á hættu að vera stefnt af hálfu lögmannsins til ógildingar úrskurði nefndarinnar eins og dæmi sýna. Þess utan telja Neytendasamtökin ófært að félagasamtökum sé gert að hafa eftirlit með eigin félagsmönnum og að félagasamtökum sé yfirhöfuð falið svo mikilvægt eftirlitshlutverk.
Með lögum 55/2018 voru gerðar breytingar á innheimtulögum til að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8302/2014. Þær breytingar sem gerðar voru komu hins vegar ekki til móts við athugasemdir umboðsmanns, þvert á móti, og því hefur löggjafavaldið enn ekki farið að tilmælum umboðsmanns frá árinu 2014 að mati Neytendasamtakanna.
Óháð úttekt á tölfræðilíkani Creditinfo
Mikilvægt er að tölfræðilíkan lánshæfismats sé tekið út af óháðum aðila sem sannreyni getu þess til að reikna út líkur á greiðslufalli, og að aðferðafræði líkansins sé aðgengileg og opin öllum. Neytendasamtökin hafa ítrekað kallað eftir slíkri úttekt, meðal annars í Umsögn um starfsleyfi Creditinfo árið 2020 (sjá hér). Persónuvernd tók undir með Neytendasamtökunum í bréfi til Seðlabankans og Atvinnuvegaráðuneytisins 14. jan. 2022 (sjá hér).
Í því samhengi má benda á að í Danmörku er það fjármálaeftirlitið sem fer með eftirlit með fjárhagsupplýsingastofum, en á Íslandi má deila um hvort raunverulegt frumkvæðiseftirlit sé með starfseminni.