Hugleiðingar veðurfræðings
Allhvöss suðaustanátt skellur á suðvestur- og vesturhluta landsins í dag með talsverðri rigningu. Tilefni er til að minna ferðalanga á að við fjöll geta hvassir vindstrengir verið varasamir ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Um landið norðaustanvert stefnir hins vegar í bjartan og fallegan dag þar sem hæstu hitatölur fara líklega í 22 stig. Það bætir þó einnig í vindinn þar þegar líður á daginn. Seinni partinn fer að lægja, fyrst vestantil, en síðan um allt land í nótt og dregur vel úr úrkomunni.
Tíðindalítið veður næturinnar mun ekki staldra lengi við því næsta lægð kemur á morgun með mjög svipuðu veðri og spáir í dag, allhvassri suðlægri átt og talsverðri rigningu sunnan- og vestantil. Þegar líður á morgundaginn snýst í heldur hægari vestlæga átt og dregur smám saman úr úrkomu.
Veðuryfirlit
300 km NA af Hvarfi er 995 mb lægð sem þokast NA og grynnist. 600 km A af Langanesi er 1035 mb hæð sem fer hægt A.
Veðurhorfur á landinu
Suðaustan 10-18 m/s og rigning sunnan- og vestantil, sums staðar talsverð úrkoma, en lengst af þurrt og bjart um landið norðaustanvert. Lægir vestanlands síðdegis og fer að draga úr vætu. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast fyrir norðan. Sunnan 8-15 á morgun, en yfirleitt hægari vestantil. Allvíða talsverð rigning sunnan- og vestanlands, en úrkomuminna á norðaustanverðu landinu. Dregur úr vætu vestantil síðdegis. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Suðaustan 10-18 m/s og rigning, en lægir síðdegis og dregur úr vætu. Hiti 9 til 14 stig.
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 og rigning á morgun, en sunnan 8-13 um tíma kringum hádegi. Úrkomulítið annað kvöld.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og skúrir, en dálítil rigning austantil. Hiti 7 til 13 stig.
Á föstudag:
Norðan og norðaustan 8-15 og dálítil rigning með köflum, en yfirleitt þurrt suðvestan og vestantil. Hiti 6 til 14 stig, mildast sunnan heiða.
Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt og bjart með köflum, hiti 8 til 15 stig.
Á sunnudag og mánudag:
Vestlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en skýjað með köflum vestantil. Hiti breytist lítið.