Klettamyndun sem sást í gögnum líktist mannslíkama að stærð og lögun
Sem fyrr eru það umferðarlagabrotin sem eru flest í skrám lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku viku. 84 ökumenn óku of hratt. Af þeim voru 10 í Sveitarfélaginu Hornafirði, 18 í Vestur-Skaftafellssýslu, 19 í Rangárvallasýslu og 37 í Árnessýslu. Hraðast ók 17 ára drengur, um Eyrarbakkaveg á 141 km/klst, með þriggja mánaða gamalt ökuskírteini og er nú kominn með 3 punkta í ökuferilsskrá. Hann á einungis einn punkt eftir í það að verða settur í akstursbann og þurfa að sækja sér aukna þekkingu á sérstöku námskeiði fyrir þá sem fá 4 punkta eða fleiri á sínu fyrsta bráðabirgðaskírteini.
Auk þess þarf hann að standa skil á 150 þúsund króna sekt. Einn þessara sem óku of hratt reyndist einnig ölvaður en hraði bifreiðar hans mældis 126 km/klst á þjóðvegi 1 við Hólá í A-Skaft.
Tveir aðrir ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og tveir eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Ökumanni flutningabíls sem vegaeftirlitsmenn stöðvuðu á Suðurlandsvegi var gert að hætta akstri en viðkomandi reyndist sviptur ökurétti vegna fyrri brota. Þetta uppgötvaðist í reglubundnu eftirliti með akstri stórra ökutækja en í liðinni viku voru 222 atriði skoðuð hjá ökumönnum þessa flokks ökutækja. Líkt og í annarri umferð eru lang flestir með öll sín atriði í lagi en alltaf finnast þó einhver frábrigði sem gerða þarf athugasemdir við. Þannig reyndust þrír án rekstrarleyfis og einn reyndist vera að flytja of marga farþega.
Ökumaður á „krossara“ slasaðist á fæti þegar hann missti stjórn á hjóli sínu á Nesjavöllum þann 29.09.19. Fluttur með aðstoð björgunarsveitarmanna að sjúkrabifreið og með henni af vettvangi en er ekki talinn alvarlega slasaður. Þá slasaðist ökumaður fólksbifreiðar á höfði þegar árekstur varð með bifreið hans og annarri sem kom úr gagnstæðri átt á Suðurlandsvegi skammt frá Oddavegi þann 27.09 Meiðsl mannsins eru þó ekki talin alvarleg. Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt þar sem einungis var um eignatjón að ræða og í því þriðja var ekið á lamb skammt frá Hörgslandskoti á Síðu þann 23.09. Ökumaður bifreiðarinnar hafði horft á eftir lambinu hlaupa í burtu en síðar kom í ljós að aflífa þurfti lambið vegna þeirra áverka sem það hlaut.
Björgunarsveitir voru kallaðar til þann 29.09 vegna fólks sem var í sjálfheldu við Klifandagil sunnan Mýrdalsjökuls. Fólkið aðstoðað við að komast til byggða og í gistingu á hóteli sínu þar skammt undan.
Björgunarsveitir leituðu bakka Þingvallavatns í gær, sunnudag, að Belgískum ferðamanni fæddum 1978 sem talinn er hafa drukknað í vatninu við siglingar á uppblásnum kayak sínum þann 10. ágúst s.l. á vatninu. Ekkert fannst sem talið er tengjast leitinni. Búið er að fara yfir þau gögn sem fengust með sónarleit í vatninu og var eitt atriðið skoðað með kafbát í framhaldi af því en þar reyndist klettamyndun sem sást á gögnunum líkjast mannslíkama að stærð og lögun. Fundað verður með svæðisstjórn Björgunarsveita og ákærusviði um aðgerðina í heild og rannsókn málsins á næstu dögum.