Á meira en 30 áfangastöðum ferðamanna víða um land eru að jafnaði rukkaðar 1.000 kr. fyrir að leggja bíl. Ef ekki er gengið frá greiðslu samdægurs fær bíleigandinn senda kröfu um 4.500 kr. vangreiðslugjald til viðbótar. Á flestum þessara staða er nýlega byrjað að rukka fyrir bílastæði sem áður voru gjaldfrjáls, án þess að nokkuð hafi breyst sem útskýrir eða réttlætir gjaldtökuna.
FÍB hefur fengið fjölmargar kvartanir vegna bílastæðainnheimtunnar. Kvartað er undan þeim skamma tíma sem ferðarfólki er gefinn til að greiða fyrir bílastæði, ruglingshættu milli bílastæða, einokun á greiðsluleiðum og óútskýrðum háum vangreiðslukröfum. Kvartað er undan því að á óskipulögðum malarstæðum er sama 1.000 kr. gjald tekið og á þeim örfáu bílastæðum sem eru til fyrirmyndar og bjóða upp á salernisaðstöðu.
Að mati FÍB er gjaldtaka á bílastæðum á ferðamannastöðum gengin út í öfgar, ekki síst með háum vangreiðslugjöldum. Tala má um rányrkju í ljósi þessara ósanngjörnu viðskiptahátta. Þarna eru lóðarhafar, landeigendur og bílastæðafyrirtæki að fénýta sér aðkomu að náttúrperlum. Einatt er fullyrt að fjármunirnir fari í uppbyggingu aðstöðu. Svo virðist vera í einstaka tilfellum, en víðast hvar er meint uppbygging í engu samræmi við gjaldtökuna.
Neikvæð áhrif fyrir allan almenning
Vart þarf að nefna þau neikvæðu áhrif sem þessi útbreidda og vaxandi innheimta hefur fyrir almenning og ferðaþjónustuna, ekki síst þegar engin ástæða virðist fyrir gjaldtökunni. Þá má rifja upp að aðilar í ferðaþjónustu hafa margoft vakið athygli á óþrifnum, biluðum eða lokuðum salernum á sumum þessara staða, þó svo að gjaldtakan sé einkum réttlætt vegna salernisaðstöðunnar.
Íslendingar eiga því að venjast að gera notið náttúrunnar í frjálsri för um landið, enda er almannarétturinn ríkur. Stórfelld gjaldtaka á bílastæðum við náttúruperlur gengur gegn þessum hefðum og eyðileggur þá ásýnd sem við viljum hafa af landinu. Ekki er á bætandi þann kostnað sem almenningur hefur af því að ferðast um landið og fyrirséð að kynni margra af markverðum áfangastöðum verða minni fyrir vikið.
Parka lausnir fyrirferðarmest
Parka stendur að baki gjaldtökunni á flestum ferðamannastöðunum. Fyrirtækið hefur sótt stíft á lóðarhafa að hefja gjaldtöku, hvort sem þörf er á henni eða ekki. Parka leyfir ekki að borgað sé með öðrum öppum en þess eigin, eða í gegnum eigin vefsíðu eða eigin greiðsluvél. Helsti ávinningur Parka virðist þó felast í hinum háu vangreiðslugjöldum, sem fyrirtækið tekur til sín að öllu leyti. Ennig tekur Parka fimmtung af sjálfu bílastæðagjaldinu. Í nýlegu viðtali Morgunblaðsins við forráðamenn Parka kemur fram að fyrirtækið hafi tvöfaldað tekjur sínar milli ára og að fjárfestar banki á dyrnar því þeir sjái mikil vaxtartækifæri í því. Áform sé um að „taka hugmyndina miklu lengra.“
Engin bílastæðagjöld á Gullfossi og Geysi
Sú undantekning vekur athygli að á tveimur stærstu ferðamannastöðum landsins, Gullfossi og Geysi, er engin gjaldtaka á bílastæðum þó þau séu á vegum einkaaðila. Af því má ráða að gjaldtaka á mörgum hinna ferðamannastaðanna sé ekki af nauðsyn heldur sem tekjulind lóðarhafa og bílastæðafyrirtækja.
Ferðamannastaðir byggðir upp með skattpeningum
Á mörgum þeirra áfangastaða sem um ræðir hefur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða staðið straum af stórum hluta uppbyggingar og endurbóta. Framlög úr sjóðnum nema hundruð milljónum króna á hverju ári. Víðast hvar hafa framlög fengist gegn því að aðgangur að náttúruperlum sé gjaldfrjáls. Lóðarhafar og landeigendur fara í kringum þetta með því að krefjast greiðslu fyrir bílastæðin.
Örfáir staðir þar sem þjónusta fylgir gjaldtöku
Á nokkrum ferðamannastaðanna helst gjaldtaka á bílastæðum í hendur við þá þjónustu og uppbyggingu sem veitt er. Þar á meðal má nefna Þingvelli, þar sem salerni og önnur þjónusta fær að jafnaði góða einkunn frá aðilum í ferðaþjónustu. Aðrir staðir sem nefndir eru í sömu andrá eru Hengifoss, Skaftafell, Sólheimajökull og Reykjadalur.
Hátt gjald á bílastæðum við flugvelli
Dagurinn á bílastæðum við helstu flugvelli Isavia kostar 1.750 kr, eða 750 krónum meira en dagurinn á flestum ferðamannastöðunum. Aðeins nýlega var farið að innheimta gjald á flugvöllum í innanlandsflugi. Engin sýnileg ástæða er fyrir gjaldtökunni á Akureyri og Egilsstöðum önnur en sú að farið var að rukka við Reykjavíkurflugvöll. Isavia innheimtir 1.490 kr „þjónustugjald“ ef ekki er greitt innan 48 tíma. Aðeins er hægt að nota app Autopay eða Parka til að greiða sjálfvirkt við flugvellina.
Ferðamannastaðir þar sem innheimt er fyrir bílastæði og fyrirtækin sem annast innheimtuna á hverjum stað
Parka/Myparking Dagsgjald Landsvæði
Brúarfoss 750 kr S
Brúarhlöð 1.000 kr S
Eyvindarholt (flugvélarflak) 1.000 kr S
Fjaðrárgljúfur 1.000 kr S
Glanni & Paradísarlaut 1.000 kr V
Gluggafoss 1.000 kr S
Arnarstapi Hotel 1.000 kr V
Hverfjall 1.000 kr NE
Illugastaðir 1.000 kr NV
Jökulsárlón 1.000 kr S
Kvernufoss, Skógasafn 750 kr S
Reynisfjara P1 1.000 kr S
Reynisfjara P2 750 kr S
Rútshellir 1.000 kr S
Skaftafell – Vatnaj.þjóðg. 1.000 kr S
Skíðaskálinn Hveradölum 1.000 kr S
Stuðlagil, Klausturgil 1.000 kr A
Sólheimajökull 750 kr S
Sólheimasandur 750 kr S
Checkit.is
Þingvellir 1.000 kr S
Seljalandsfoss 1.000 kr S
Hengifoss 1.000 kr A
Selafjaran 900 kr V
Sannir landvættir (Öryggismiðstöðin)
Hverir við Námaskarð 1.200 kr NE
Kirkjufellsfoss 1.000 kr V
Viking Park 1.000 kr S
Laufskálavarða 300 kr S
Eigin innheimta/ókunnugt
Kerið (verð per haus) 600 kr S
Hverarönd 1.000 kr N
Bolafjall 1.000 kr VF
Reykjadalur (klst) 200 kr S
Autopay.io
Akureyrarflugvöllur 1.750 kr N
Egilsstaðaflugvöllur 1.750 kr A
Keflavíkurflugvöllur 1.750 kr S
Umræða