Vinstri lirfumaðurinn
Hér kemur smásagan Vinstri lirfumaðurinn. Heyrst hefur að ný tegund manna sé að fæðast í Reykjavík undir forystu Dags o/co. nefnist hann Vinstri lirfumaðurinn. Lífsferill hans er ekki ólíkur lífsferli fiðrildisins. Er hér smá saga af þróunarferli eins slíks lirfumanns.
Sá vinnur hjá föður sínum í all stöndugu fyrirtæki hér vestur í bæ. Lirfumaðurinn býr heima og dundar sér helst við tölvuleiki einkum Robolox enda með fjarlægan draum um að verða arkitekt.
Strákurinn er mjög latur annars til vinnu og mætir sjaldan fyrr en eftir hádegi. Faðirinn er mikill fjáraflamaður og sér sér leik á borði þegar ódýrar niðurgreiddar íbúðir á vegum borgarinnar niður við fyrrum ruslahauga eru auglýstar. Skammtar hann lirfusyninum nákvæmlega þá upphæð sem passar við umsóknir um ódýru íbúðirnar.
Vinstri lirfumaðurinn er ekki alveg sáttur við að fara af hótel mömmu en fer samt í þessa huggulegu nýju íbúð og heitir því að kjósa ætíð Dag.
En eitthvað dregur af Vinstra lirfumanninum þegar hann hefur ekki lengur mömmu og pabba sér til halds og trausts. Hann mætir sífell stopulla í vinnunna til pabba. Gerist hann þannig þunglyndur mjög og er greindur með áfallastreitu. Fer hann fljótlega á öryrkjabætur og hættir að vinna hjá pabbanum.
Pabbinn neitar að styrkja strákinn en þá vill svo vel til að Borgarlínan er komin fyrir utan húsgaflinn hjá honum. Ferðast nú Vinstri lirfumaðurinn úr niðurgreiddu nýju íbúðinni all borubrattur í fría heilsurækt hjá Bjössa í Worldclass og á alls konar Virkninámskeið. Hann dundar sér annars nánast öllum stundum við að byggja hús í Robolox. Verður draumurinn um að verða arkitekt sífellt fjarlægari.
En svo hleypur á snærið hjá Vinstra lirfumanninum. Hann er í góðu vinfengi við einn skutulsvein Dags og viti menn Vinstra lirfumanninum er boðið sæti á framboðslista Samsuðunnar. Hann kemst inn í borgarstjórn og hættir umsvifalaust að þyggja öryrkjabætur.
Vinstri Lirfumaðurinn kann afskaplega vel við sig á borgarstjórnarfundum. Hann er skipaður í Skipulagsráð borgarinnar og situr gjarnan löngum stundum á fundum og smíðar heilu hverfin með Robolox forritinu. Lýkur þannig frásögn af þessari nýju tegund af manni er ber heitið: Vinstri lirfumaðurinn.
Góða helgi