Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, segir það mikil sorgartíðindi að útgáfu Fréttablaðsins hefði verið hætt. Það sé mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag að missa einn stærsta fjölmiðil landsins. Þetta kemur fram í viðtali við hana á Vísi.is
Blaðamönnum og starfsmönnum Torgs, sem rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, Hringbraut og DV.is var sagt í morgun að útgáfu blaðsins, rekstri á vefsíðu blaðsins og sjónvarpsstöð Hringbrautar verði hætt. DV og vefsíða Hringbrautar eru enn opin.
„Þetta er annað af tveimur prentuðum dagblöðum sem okkur er boðið upp á í dag. Það er ömurlegt að vita til þess að það sé ekki lengur að koma út,“ Segir Sigríður Dögg í viðtalinu.
,,Farin að trúa því að það sé bara hópur af fólki hér sem hefur hag af því að hafa hér veika fjölmiðla“
Hún telur að stjórnvöld beri mikla ábyrgð á ástandinu en að almenningur á Íslandi gerði það einnig. „Við verðum líka að horfa á að við getum sjálf haft áhrif á að hér séu fjölmiðlar sem þrífast. Við getum valið hvar við auglýsum, sérstaklega stór fyrirtæki og stofnanir í opinberri eigu. Við getum gerst áskrifendur að fjölmiðlum til þess að tryggja það að við fáum aðgang að fréttum og umræðunni í samfélaginu.
Hún sagði að ef það væri stór hópur stjórnmálamanna sem krefðist þess að ekkert væri gert í að styðja fjölmiðla nema RÚV væri tekið af auglýsingamarkaði, þyrfti bara að afgreiða þá umræðu. „Ég er í alvörunni farin að trúa því að það sé bara hópur af fólki hér sem hefur hag af því að hafa hér veika fjölmiðla“
Almenningur getur haft áhrif
Við getum lagt okkar að mörkum með því að tala upp fjölmiðla og ræða það okkar á milli hversu mikilvægt það er fyrir lýðræðislega umræðu og lýðræðið í landinu að hér séu öflugir fjölmiðlar. Það er ekki bara nóg að tala um þetta heldur er þetta eitthvað sem verður að sýna í verki.“ Sagði Sigríður Dögg í samtali við Vísi.