Flugu 14.000 km. leið til þess eins að vera skotnir
,,Menn bera mis mikla virðingu fyrir náttúrunni. Við árlegar talningar á mófuglum, sem nú eru nýhafnar, gengu starfsmenn Náttúrustofunnar fram á vitnisburð um algjört virðingarleysi gagnvart náttúrunni, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Kjóapar hafði verið skotið þar sem það hafði setið á óðali sínu í undirbúningi varps, sem er að hefjast um þessar mundir. Augljóst var að kjóarnir höfðu verið skotnir með riffli í um 140 m fjarlægð frá þjóðvegi.“ Að sögn Sesselju Guðrúnu Sigurðardóttur, hjá Náttúrufræðistofnun Norðausturlands.
Tvö kjóapör hafa um áraraðir orpið á mófuglatalningasvæði Náttúrustofunnar við Hringver á Tjörnesi. Síðan 2009 hefur það verið fastur punktur í sumarbyrjun að heilsa upp á þau á óðulum sínum við talningar. Þar hafa þau tekið heimsókninni af almennri varkárni, með látbrögðum eða ógnun, allt eftir því hve gengið er nærri þeirra heilaga vé, eggjunum. Þeim er enda mikið í mun að verja varpafkomu sína eins og þeim frekast er unnt fyrir hvers kyns afföllum, því lífsbaráttan er hörð og mikið lagt á sig til að koma genum sínum áfram til næstu kynslóða í gangverki lífsins.
Til vitnis um það sýna nýlegar rannsóknir fram á að íslenskir kjóar ferðast um langan veg til suðurhvels Jarðar, líkt og krían, að loknu varpi hér til að afla sér lífsviðurværis yfir vetrartímann. Dvelja þeir úti á sjó beggja vegna Atlantsála, m.a. við S-Afríku og Argentínu. Þar, líkt og hér, sækja þeir sér fæðu í sjó en einnig með því einkennandi hátterni sem þeir hafa tileinkað sér við að komast af, að ræna fæðu frá öðrum fuglum.
Í því eru kjóar sérfræðingar en ránið stunda þeir með því að hrella sjófugla (t.d. kríur og lunda) sem bera smáfiska og aðra fæðu til unga sinna, þannig að þeir missi fæðuna sem kjóarnir síðan hirða upp. Þegar líða fer að vori á norðurhveli halda kjóarnir af stað að nýju í 14.000 km langt ferðalag norður eftir Atlantshafinu til þess að verpa eggjum sínum og koma upp ungum á óðali sínu sem þeir verja frá ári til árs, sama óðalið. Á hverju ári má því áætla að hver íslenskur kjói fljúgi tæplega 30.000 km um Atlantshafið frá norðri til suðurs og til baka milli varp- og vetrarstöðva.
Vetrarstöðvar fimm íslenskra kjóa afmarkaðar með mismunandi litum fyrir hvern einstakling. Örvar sýna farleiðina heim til varpstöðva á Íslandi að vori. Heimild: Sölvi Rúnar Vignisson, Gunnar Þór Hallgrímsson, Yann Kolbeinsson. Migration of the Icelandic Arctic Skua Stercorarius parasiticus. Veggspjald á 2nd World Seabird Conference í Höfðaborg, S-Afríku 26.-30. október 2015.
Það er þyngra en tárum taki að á tímum upplýsinga og náttúrverndar sé til fólk sem drepur kjóa án nokkurrar rökstuddrar ástæðu. Kjóar eru alfriðaðir skv. lögum líkt og almennt gildir um íslenska fugla, nema við friðlýst æðarvörp á tímabilinu frá 15. apríl til 14. júlí. Því miður virðist sem kjóar séu víða drepnir utan friðlýstra æðarvarpa því Náttúrustofunni hefur borist til eyrna fleiri dæmi um slík lögbrot á Norðausturlandi. Sýslumaður annast friðlýsingu æðarvarpa sem gildir í 10 ár frá birtingu í Lögbirtingablaðinu. Engar auglýsingar er að finna um friðlýsingu æðarvarpa hjá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra síðustu 10 ár, frá 1. janúar 2008 til 1. febrúar 2018 (sjá www.syslumenn.is).
Vonandi vekur þessi pistill fólk til hugsunar um að bera virðingu fyrir öllu lífi, því lífsbaráttan er hörð hvert sem í horn er litið og allir þurfa að hafa fyrir sínu. Virðingin þarf að gilda almennt um auðlindanýtingu okkar og umgengni í náttúrunni. Einungis fáfræði og tilfinningasemi mannsins flokkar lífverur í góðar og vondar. Gild rök ætti að þurfa færa fram ef drepa á dýr, líkt og kjóann, til að verja tiltekna hagsmuni. Ekki er ólíklegt að kjóaparið á Hringveri hafi farið víðar um heiminn og séð meira á lífsleiðinni en sá er fann hjá sér löngun til að miða þau út í gegnum riffilkíkinn sinn, þar sem þau sátu friðsöm á óðali sínu, og taka í gikkinn.