Flokkur fólksins hefur lagt fram þingsályktunar tillögu um að þessum launahækkun ráðamanna verði „frestað“ því „það er með öllu ótækt að kjörnir fulltrúar fái mun meiri launahækkun en hinn almenni vinnumarkaður á meðan þjóðinni blæðir í okurvöxtum og óðaverðbólgu“
Tillaga til þingsályktunar um frestun launahækkana æðstu ráðamanna þjóðarinnar
Flutningsmenn, Flokkur fólksins.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Sigurjón Þórðarson og Tómas A. Tómasson.
Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um að fyrirhugaðri hækkun launa æðstu ráðamanna, sem ella myndu hækka til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins, verði frestað. Frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.
Ótækt að kjörnir fulltrúar fái mun meiri launahækkun en hinn almenni vinnumarkaður á meðan þjóðinni blæðir í okurvöxtum og óðaverðbólgu
Greinargerð.
Lagt er til að fela ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um frestun á fyrirhuguðum launahækkunum æðstu ráðamanna. Um er að ræða þá hópa háttsettra opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa sem hafa launakjör sem mælt er fyrir um í lögum og eru uppfærð árlega til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Ákvæði þess efnis er m.a. að finna í lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, lögum um Stjórnarráð Íslands og lögum um dómstóla.
Fyrirhuguð launahækkun mun að óbreyttu hækka laun alþingismanna langt umfram þær krónutöluhækkanir sem samið var um í kjarasamningum undanfarinna missera fyrir þorra launamanna. Það er með öllu ótækt að kjörnir fulltrúar fái mun meiri launahækkun en hinn almenni vinnumarkaður á meðan þjóðinni blæðir í okurvöxtum og óðaverðbólgu.