Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur óskað eftir því að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara endurmeti hvort þörf sé á því að opna tollkvóta á lambahryggjum í ljósi nýrra upplýsinga sem nefndinni bárust frá framleiðendum. Nefndinni ber að skila niðurstöðu í þessari viku.
Frá því í vor hefur ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara reglulega fengið tilkynningar um skort á lambahryggjum frá dreifingaraðilum. Hinn 22. júlí síðastliðinn fékk nefndin upplýsingar sem bentu til þess að það stefndi í skort hjá stórum hluta framleiðendanna sem ýmist voru búnir að tæma sínar birgðir, áttu lítið eftir eða gátu ekki annað dreifingu með góðum hætti.
Til að tryggja framboð á vörunni til neytenda lagði nefndin til við ráðherra að felld yrði niður innflutningsvernd á lambahryggjum tímabundið, eða frá 29. júlí fram til 30. ágúst 2019. Áður en ráðherra tók afstöðu til tillögu nefndarinnar fékk nefndin upplýsingar um breytta birgðastöðu framleiðenda sem kunna að hafa áhrif á hvort lagaskilyrðum fyrir opnun tollkvóta sé fullnægt. Í ljósi þessa og með vísan til 65. gr. A. búvörulaga nr. 99/1993 hefur ráðherra óskað eftir því að nefndin taki málið aftur til afgreiðslu og ljúki yfirferðinni í þessari viku.