,,Þetta er eitt af risastóru Ó-jafnréttismálunum á Íslandi í dag og það kemur hart niður á börnum, ekki síður en feðrum þeirra“
Á þessari forsíðu Time er á táknrænan hátt verið að sýna raunveruleika margra feðra sem missa sambandið við börnin sín eftir skilnað. Þótt fráskildir feður á Íslandi njóti á margan hátt góðs af því hvað jafnréttismál standa almennt vel hér á landi er samt staða fráskilinna feðra skuggalega slæm miðað við stöðu fráskilinna mæðra.
Yfir 90% fráskilinna feðra eru ekki skráðir foreldrar
Yfir 90% fráskilinna feðra eru ekki skráðir foreldrar barnanna sinna í þjóðskrá, fá engan stuðning til að sinna foreldrahlutverki sínu, hafa ekki aðgang að sjúkraskrám barnsins, geta ekki verndað þau fyrir ofbeldi af hálfu móður og eru oft krafðir um fullt meðlag þrátt fyrir að vera jafn mikið (og jafnvel meira) með börnin en mæður barnanna. Þetta kemur fram á síðunni Foreldrajafnrétti
,,Þetta er eitt af risastóru Ó-jafnréttismálunum á Íslandi í dag og það kemur hart niður á börnum, ekki síður en feðrum þeirra. Rannsóknir sýna að þau börn sem standa sig best eftir skilnað foreldra eru þau börn sem eru í jafnri umgengi við bæði pabba sinn og mömmu.
Kerfið okkar býður fráskildum foreldrum upp á að verða annars vegar lögheimilisforeldri með úrslitavald í öllum málum, aðgang að öllum upplýsingum, öllum stuðningi hins opinbera eða umgengnisforeldri með engan rétt nema til umgengni við barnið upp að 50%.
Þótt margir lögheimilisforeldrar (yfir 90% mæður) vinni vel úr þessari ójöfnu stöðu, og leiðrétti jafnvel þá fjárhagslegu mismunun sem kerfið býr til segir sig sjálft að þar sem svona gríðarlegt valdaójafnvægi ríkir þar er líka hætta á að annar aðilinn misnoti vald sitt og valti yfir hinn aðilann.
Það eru ófáir feðurnir sem hafa samband við okkur vegna hótana barnsmæðra um að klippa á sambandið við börnin þeirra ef þeir borga ekki aukalega til þeirra, láta ekki frá sér umsaminn rétt t.d. til sumarleyfa eða taki börnin alfarið þegar þeim hentar að losna við þau. Slíkt ástand er auðvitað slæmt fyrir feðurna en þó mikið verra fyrir börnin.
Líklega eru fáir hópar barna á Íslandi í dag jafn varnarlausir gagnvart ofbeldi og börn ofbeldisfullra mæðra sem jafnframt eru lögheimilisforeldrar. Nýleg dönsk rannsókn sýnir að mæður beita börn oftar ofbeldi en feður. Það kann að skýrast af því að enn séu mæður meira með börnin en feður þeirra. En rannsóknin sýnir jafnframt að vegna úreltra viðhorfa samfélagsins til kynjanna eru börn ofbeldisfullra mæðra í þeirri stöðu að vera ekki trúað þegar þau segja frá ofbeldinu. Um þetta höfum við nýleg og hrikaleg dæmi úr íslensku samfélagi.
Við þurfum að jafna stöðu og rétt beggja foreldra til að sinna foreldrahlutverki sínu. Það er gríðarlega áríðandi fyrir börn fráskilinna foreldra og þetta er eitt af stóru jafnréttismálunum sem enn er á steinaldarstigi.
Viðreisn lagði á síðasta þingi fram frumvarp um tvöfalt lögheimili sem væri stórt skref í rétta átt. Sömuleiðis hafa fulltrúar Viðreisnar og Pírata í Reykjavík sýnt því mikinn áhuga að veita umgengnisforeldrum jafnan aðgang að stuðningsúrræðum eins og tómstundastyrkjum og almennum aðgangi að öllum upplýsingum varðandi barnið. Vonandi sjáum við fleiri stjórnmálaflokka vakna til vitundar um þessa hrikalega skökku stöðu á næsta þingi.“