Allnokkur erill var hjá lögreglu á Norðurlandi eystra sl gærkvöld og nótt.
Um kl. 20:30 í gærkvöldi fékk lögregla tilkynningu um mögulega vímaðan ökumann á ferðinni þar sem maðurinn hafði einnig veist að konu og síðan ekið í burtu eftir það. Lögreglumenn sáu bifreiðina, gáfu stöðvunarmerki sem ökumaður sinnti ekki og ók áfram á miklum hraða og skapaði með aksturslagi sínu mikla hættu og viðhafði vítaverðan akstur mót einstefnu og yfir umferðareyjar. Eftir nokkurra mínútna eftirför sem endaði við iðnaðarbil í bænum stökk maðurinn út úr bifreiðinni en náðist skömmu síðar og var handtekinn og færður á lögreglustöð og síðan vistaður í fangageymslum v. rannsóknar málsins.
Lögreglan í Fjallabyggð fékk tilkynningu um kl. 23:30 í gærkvöldi um slys þar sem kona hafði fallið um fjóra metra af bakka og niður í fjöru við Hauganes. Betur fór en á horfðist og konan lítið slösuð. Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna slyssins en afboðaðar stuttu síðar þegar ljóst þótti að hægt var að koma konunni til aðstoðar frá landi en mögulega var talið að sækja þyrfti hana í fjöruna, frá sjó.
Rétt eftir miðnætti var maður handtekinn á Siglufirði en hann hafði verið tilkynntur með ógnandi tilburði og sagðist vera vopnaður hnífi. Sérsveit RLS á Akureyri var kölluð út vegna mannsins og hélt af stað á vettvang en stuttu síðar náðu lögreglumenn á Siglufirði að handtaka hann án vandkvæða og var hann færður á lögreglustöðina á Akureyri og vistaður þar.
Tilkynnt var um umferðarslys á gatnamótum Ólafsfjarðarvegar og Hringvegar um 23:30 í gærkvöldi þar sem árekstur varð með tveimur bifreiðum en meiðsl minniháttar sem betur fór. Sjúkralið og lögregla fóru á staðinn.
Lögregla á Akureyri fékk tilkynningu um ölvun og ágreining á tjaldsvæðinu við Hamra, um kl. 02:30 og fóru á vettvang og náðist að leysa þann ágreining milli aðila án þess að fjarlægja þyrfti fólk eða setja í fangageymslur.
Um kl. 03:00 var tilkynnt um ógnandi framkomu gestar í Sjallanum gegn dyraverði. Það mál leystist á staðnum. Lögregla ók nokkrum ofurölvi einstaklingum heim á leið sem höfðu fengið sér heldur mikið ,,neðan í því“ og voru orðnir frekar lasnir af þeim sökum.
Lögregla fékk um kl. 04:00 beiðni frá bráðamóttöku sjúkrahússins á Akureyri vegna manns sem þar var óstýrilátur. Sá hafði verið fluttur þangað af lögreglu stuttu áður vegna ástands. Það leystist með samvinnu lögreglu og heilbrigðisstarfsmanna.
Einhver hiti var í mönnum við Götubarinn í Hafnarstræti um kl. 04:00 og veittust þar nokkrir menn að einum sem tókst að koma sér í skjól á veitingastaðnum og biðja um aðstoð. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku SAk.
Tilkynnt var um ungan dreng á ferðinni á bifreið sem hann hafði tekið í óleyfi snemma í morgun en þegar lögregla kom á staðinn hafði hann skilað bifreiðinni til eiganda síns óskemmdri. Verður háttalag hans tilkynnt barnaverndaryfirvöldum.
Lögregla var með mikið eftirlit í bænum og umdæminu og voru margir ökumenn stöðvaðir og kannað með ástand og réttindi.
Lögregla er þessa dagana við hálendiseftirlit og með bækistöð við Drekagil í Öskju. Hafa þau verið þar til aðstoðar og meðal annars aðstoðað ferðalanga í gær sem höfðu fengið vatn inn á vél bifreiðar sinnar við að aka yfir á. Höfðu aðstoðað og leiðbeint fjölda fólks með ferðaleiðir vegna veðurs og færðar. Lögregla verður með viðdvöl þarna fram yfir helgi og síðan áfram út sumarið með stuttum hléum. Lögreglan á Norðurlandi eystra óskar öllum velfarnaðar og vonar að allir komist heilir heim eftir þessa miklu ferðahelgi.
Umræða