Síðdegis á föstudag var áhöfnin á TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kölluð út vegna reiðhjólamanns sem fallið hafði sex metra niður í gil í Þjórsárdal og misst meðvitund. Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang var maðurinn kominn til meðvitundar. Sú ákvörðun var tekin að flytja hann með sjúkrabíl á Selfoss til skoðunar.
Á laugardag var þyrlusveitin fjórum sinnum kölluð út. Fyrsta útkallið barst laust fyrir klukkan fjögur síðdegis vegna vélsleðaslyss við Skálpanes á Langjökli. Kona sem var á vélsleða hafði fallið af honum og var áhöfn þyrlunnar kölluð út á mesta forgangi. Meiðsli konunnar voru ekki jafn alvarleg og óttast var í fyrstu. Henni var komið fyrir um borð í þyrlunni. Þegar þyrlan var að taka á loft frá Langjökli til Reykjavíkur barst annað útkall vegna slasaðs manns sem féll af hestbaki við Úthlíð. Ákveðið var að halda þangað og lenda í Úthlíð og kanna ástand mannsins. Þegar þangað var komið reyndist ekki þörf á að flytja hestamanninn með þyrlunni og var vélsleðakonan flutt á Landspítalann í Fossvogi.
Seinna sama kvöld var þyrlusveitin kölluð út vegna alvarlegra veikinda um borð í skemmtiferðaskipi sem statt var um 150 sjómílur Suðvestur af Reykjanesi. Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin að skemmtiferða skipinu á tíunda tímanum og sjúklingurinn var hífður um borð í þyrluna og fluttur á Landspítalann.
Á sama tíma var hin þyrluvaktin kölluð út vegna slasaðs björgunarsveitarmanns sem hafði fótbrotnað á gönguleið milli Bláhnjúks og Brennisteinsöldu, um 2 kílómetra suðvestur af Landmannalaugum. Ekki var mögulegt að flytja manninn landleiðina og því varð að kalla til þyrlu. Hann var sóttur af þyrlusveitinni og fluttur á Landspítalann í Fossvogi.
Degi síðar var þyrlusveitin aftur kölluð út að sama slóða við Bláhnjúk vegna göngumanns sem hafði runnið niður skriðu og slasast. Þyrlan lenti á sama stað og degi áður, sótti göngumanninn og flutti á Landspítalann í Fossvogi.
Helgin var sannarlega annasöm hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.
Umræða