Nú er komið að þeim tímapunkti í kjaradeilunni að orðin ein duga ekki lengur, hvorki af hálfu ríkisstjórnar né Samtaka atvinnulífsins. Nú er kominn tími ákvarðana.
Það er mikilvægt að þessir tveir aðilar leggi sig fram um að skilja sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar. Hin nýja forysta hennar er ekki skipuð tómum „vitleysingum“ eins og stundum heyrist hér og þar.
Stöðugleikinn skiptir máli en bæði ríkisstjórn og SA verða að horfast í augu við sjálfa sig. Þessi leikur hófst fyrir tveimur árumn með ákvörðunum Kjararáðs og ákvörðunum stærstu fyrirtækja um launabreytingar æðstu stjórnenda fyrirtækja.
Þeir sem neita að horfast í augu við þennan veruleika á hinum pólitíska vettvangi og í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni, sitja í glerhúsi.
Því fyrr sem þessir aðilar viðurkenna þennan veruleika fyrir sjálfum sér þeim mun betra.
Áramótaræða forsætisráðherra: Vel samin og vel flutt, en…
Áramótaræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í gærkvöldi, var vel samin og vel flutt, eins og við mátti búast af hennar hendi en hún tók ekki á hinum dýpri vandamálum samfélagsins. Kannski þykir það ekki við hæfi á hátíðarstundu og ekki í fyrsta sinn. Það sé hlutverk kjörinna leiðtoga þjóðarinnar að tala af bjartsýni en ekki bölmóð.
En getur verið að stundum sé það svo að þjóðin setjist við sjónvarpsskjáinn á gamlárskvöld og vonist eftir því að forsætisráðherra hverju sinni fjalli um hina erfiðari þætti sameiginlegra málefna þjóðarinnar? Og verði fyrir vonbrigðum ef það er ekki gert.
Auðvitað er það svo, að hvert okkar um sig upplifir umhverfið með ólíkum hætti og að þegar horft er yfir Ísland allt út um glugga stjórnarráðsins sé allt í himna lagi.
Það er samt sem áður umhugsunarefni fyrir kjörna fulltrúa, hvort það sé ekki svolítið gamaldags viðhorf að einblína á hinar björtu hliðar tilverunnar en láta sem lítið fari fyrir hinum dekkri hliðum.
Fram eftir 20. öldinni var íslenzkt samfélag bæði þröngsýnt og lokað og um erfið mál var ekki talað. En það hefur verið að breytast.
Er ekki nauðsynlegt fyrir stjórnmálamennina að laga sig að þeim breytta tíðaranda?!
Tækifæri fyrir Sósíalistaflokkinn?
Vísbendingar um, að Vinstri grænir séu smátt og smátt að fjarlægjast uppruna sinn í Alþýðubandalaginu og þar með í verkalýðshreyfingunni og áherzlan sé nú fremur á umhverfisvernd vekja upp spurningar um hvort í því felist tækifæri fyrir Sósíalistaflokkinn.
Að þar með opnist möguleiki fyrir hann til þess að ná til eldri kjósenda VG, sem studdu Alþýðubandalagið á öðrum forsendum um leið og yngri kjósenda, sem sumir hverjir hafa sýnt sósíalisma meiri áhuga en búast mátti við, þegar Sovétríkin og allt, sem þeim fylgdi féllu.
Jafnframt er augljóst að Sósíalistaflokkurinn hefur í upphafi tilveru sinnar lagt mesta áherzlu á að ná tengslum við verkalýðsfélögin. “Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. ritstjóri Morgunblaðsins.