Enn er ný sól upp runnin
Síðasta ár sem var mjög viðburðaríkt, svo stórt, lærdómsríkt og krefjandi í mínu lífi, þaut hjá á ógnarhraða og allt í einu er komið nýtt ár og enn eru áskoranir óteljandi.
Barátta fyrir betri lífskjörum til handa örorkulífeyrisþegum er endalaus og stundum vinnast orrustur. Alltaf verður þó að vera á verði gagnvart stjórnvöldum sem oft virðast ekki hafa hugmyndaauðgi til að sækja fjármagn í þjóðarbúið til annarra en þeirra sem minnst hafa.
Afleiðingin er sú að sannanlega hafa kjör fatlaðs og langveiks fólks versnað gríðarlega á síðustu tuttugu árum, þessum viðkvæma hópi sem minnstar varnir á er gert að lifa af framfærslu sem engan veginn getur dugað því.
Hvað kostar fátækt?
Nýliðið ár var engin undantekning, fatlað og langveikt fólk er enn þyrnir í augum stjórnvalda sem leita allra leiða til að uppræta þennan hóp og grípa þar til ráða sem ég hef engan skilning fyrir. Ég verð að játa að ég sem afar bláeyg og trúgjörn trúði því í upphafi síðasta árs að stjórnvöld myndu í raun einhenda sér í að að leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega, þau myndu afnema krónu á móti krónu skerðinguna, þau myndu hækka örorkulífeyri og lagfæra stuðningsúrræði s.s. húsnæðismál og heilbrigðismál.
Hvað kostar fátækt og jaðarsetning samfélagið á ári, hvaða gjald greiðum við sem samfélag, þegar fátækt er viðhaldið og verður vaxandi?
Valdhafar senda fingurinn
Stjórnvöldum hefði verið sómi að því að ákveða að síðasta ár væri rétti tíminn til að huga að fjölskyldum þessa lands með því að taka utan um þær. Lagfæra menntakerfið þannig að það í það minnsta skili börnum okkar læsum út í samfélagið, lagi framfærslumál þannig að fjölskyldur sem í þúsundavís misstu heimili sín í hruninu, eigi sér viðreisnar von. Þannig að foreldrar þurfi ekki að vinna margfalda vinnu til að geta búið börnum sínum öruggt húsaskjól. Mín upplifun af aðgerðum valdhafa þjóðarinnar er sú að þau ákváðu að hegna örorkulífeyrisþegum og senda þeim þjóðfélagshópi fingurinn.
Skerðingar eru enn inni, framfærsla frá TR eru í dag rétt um 240.000 kr. fyrir skatt. Húsnæðismál eru í algjörum ólestri og má þar nefna að Brynja húsfélag ÖBÍ varð að loka fyrir umsóknir þar sem 600 manns eru á biðlisti eftir húsnæði, eins hafa umsóknir eftir félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaga líklega aldrei verið fleiri.
Kvíði og þunglyndi hjá börnum og unglingum er alltaf að aukast, BUGL hefur engan veginn undan og foreldrar margir í öngum sínum og að þrotum komin vegna þess að úrræði eða aðstoð til þeirra vegna barna þeirra er lítil eða engin. Staðan er grafalvarleg. Er þá ótalin geðheilbrigði fullorðinna.
Við Íslendingar horfumst í augu við það að eitthvað mikið er að í okkar samfélagi þar sem það fólk sem harðast háir lífsbaráttuna gefst upp bæði andlega og líkamlega og vel menntað fólk í góðum stöðum jafnt sem minna menntað fólk í láglaunastörfum verður æ oftar alvarlegum heilsubrestum að bráð.
Það á ekki að refsa fyrir heilsuleysi
Það þarf ekki mikla skynsemi til að sjá að framfærsla fólks sem er veikt eða fatlað, (kr. 240.000 fyrir skatt) er allt of lág. Mér þótti því afar einkennileg sú aðgerð stjórnvalda á síðasta ári að hækka atvinnuleysisbætur í kr. 270.000 en skilja fatlað og langveikt fólk eftir með 238.000 kr. Ég get illa skilið þá ákvörðun stjórnvalda að gera fötluðu og langveiku fólki, lífsskilyrði sem allra erfiðust.
Bendi ég á að stærstur hópur öryrkja er fólk sem komið er vel yfir fimmtugt þegar það missir heilsuna, þetta fólk á í flestum tilfellum ekki afturkvæmt á vinnumarkað. Það er ekki tímabundið atvinnulaust heldurhefur flest misst heilsu eða fatlast til lífstíðar.
Hvorki þessu fólki né öðru fötluðu og langveiku fólki á að refsa fyrir heilsuleysi og áratuga framlag til þjóðarbúsins, með framfærslu sem engan veginn dugar og í raun eykur líkur á angist, kvíða og frekari veikindum. Fatlað og langveikt fólk á að eiga skjól samkvæmt stjórnarskrá, réttur þess til mannsæmandi lífs á að vera varinn af stjórnvöldum. Í stað þess er þessi hópur nánast varnarlaus og lífsafkoma þess algjörlega háð því hvernig stjórnvöld líta til þessa hóps hverju sinni og undanfarin 20 ár hafa stjórnvöld ekki varið afkomu þessa hóps.
Við skulum standa saman
Krafa verkalýðsfélaganna nú um hækkun á lágmarkslaunum er sanngjörn og réttlát, þetta er fólkið sem knýr atvinnulífið, fólkið sem stofnar fjölskyldur og á börn inn í mannfátt samfélag sem ætti að fagna hverjum nýjum einstaklingi. Stjórnvöldum ber að hlúa að fjölskyldum og standa vörð um m.a. heilbrigði bæði líkama og geðs.
Okkur öllum ber að hlúa að hvert öðru, standa saman þegar við verðum að krefjast réttlætis í okkar smáa en því miður margstétta samfélagi þar sem ofurríkir valdamiklir einstaklingar ætla að ráða framfærslu þeirra sem fátækastir eru, án þess að hafa nokkurn skilning á því hvernig það er að reyna að lifa af of lágum launum.
Ég viðurkenni að eftir fjárlagaumræðuna í desember var ég döpur og átti lítið af bjartsýni til að keyra á, nú hinsvegar er ég samkvæmt venju í ársbyrjun, full af bjartsýni og trúi því alveg bláeygð að stjórnvöld muni taka sig á og mæta því fólki sem lökust hefur kjörin í þessu landi af sanngirni og réttlæti á nýju ári.
Ég ætla að leyfa mér að vera vongóð og bjartsýn á að okkur beri gæfa til að gera Ísland að betra landi fyrir okkur öll að búa á. Réttlæti og gæfa fylgi okkur á nýju ári!“ Segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands