Nefnd forsætisráðherra um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga leggur til margvíslegar breytingar á söfnun, vinnslu og birtingu launaupplýsinga hér á landi. Meðal annars leggur nefndin til að settur verði á laggirnar formlegur samráðsvettvangur aðila vinnumarkaðar um launatölfræði í aðdraganda kjarasamninga, Kjaratölfræðinefnd, að norskri fyrirmynd.
Þá verði komið á heildasöfnun launaupplýsinga beint frá launagreiðendum, úrbætur gerðar á launavísitölu Hagstofunnar o.fl. Nefndin skilaði skýrslu sinni í dag.
Hagfræðingur BHM, Georg Brynjarsson, sat í nefndinni fyrir hönd bandalagsins en auk þess sátu þar fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ríkissáttasemjara, velferðarráðuneytinu, BSRB, Alþýðusambandi Íslands, Hagstofu Íslands, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka Íslands. Nefndin var skipuð á síðasta ári og fundaði samtals 32 sinnum. Hún leitaði víða fanga í sinni vinnu og leitaði álits bæði innlendra og erlendra sérfræðinga.
Helstu niðurstöður og tillögur nefndarinnar:
- Tekinn verði upp sambærilegur vettvangur samráðs milli aðila í aðdraganda kjarasamninga og tíðkast í Noregi. Nefndin hefur unnið drög að samkomulagi um stofnun Kjaratölfræðinefndar og eru þau í viðauka skýrslunnar.
- Komið verði á heildarsöfnun launaupplýsinga beint frá launagreiðendum. Nefndin leggur þó áherslu á að einnig er mikilvægt að efla núverandi launarannsókn samhliða heildargagnasöfnun til að áhætta við breytta gagnasöfnun sé viðunandi og unnt verði að brúa bilið milli ólíkra gagna og tímaraða.
- Tilmælum er beint til Hagstofu Íslands um að skoðað verði hvernig launavísitalan endurspegli hækkandi starfsaldur og aukna menntun. Niðurstöður greiningarinnar verði birtar opinberlega og brugðist við ef þær leiða í ljós bjögun á launavísitölunni.
- Hagstofan ljúki við að uppfæra íslenska starfaflokkunarkerfið, ÍSTARF95.
- Lögð er áhersla á mikilvægi þess að hafa áreiðanlegar upplýsingar um vinnutíma, sérstaklega unnar stundir.
Skýrsla nefndar forsætisráðherra um um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga