Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. mars.
Sunnudaginn 17. mars kl. 10.10 var fjórhjóli ekið austur Úlfarsfellsveg og út fyrir veginn við Víðimýri þar sem það valt yfir ökumanninn. Hann var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 18. mars kl. 16.59 hjólaði drengur á hlið bifreiðar er henni var ekið yfir hraðahindrun í Baugshlíð gegn Lágafellsskóla. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 19. mars. Kl. 14.46 var bifreið ekið suður Fjarðarhraun og aftan á bifreið norðan Reykjanesbrautar. Við áreksturinn kastaðist sú bifreið áfram og aftan á þriðju bifreiðina. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar ók síðan aftur á bak og framan á þá fjórðu. Hann hljóp síðan á brott af vettvangi, en var handtekinn skömmmu síðar og fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Og kl. 16.12 varð aftanákeyrsla í Klettagörðum við Sæbraut. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 21. mars kl. 20.48 varð aftanákeyrsla á Geirsgötu við Tryggvagötu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 22. mars kl. 23.02 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg, í aðrein að Nóntorgi og á ljósastaur við hana. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.