Á föstudaginn langa, þ. 19. apríl n.k., verða Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir upp í heild sinni í Guðríðarkirkju. Upplesturinn hefst kl. 13:00 og lýkur um það bil kl. 18:00. Lesari er Sigurður Skúlason. Fáein hlé verða gerð á lestrinum og mun Hrönn Helgadóttir organisti Guðríðarkirku leika tónlist sem hæfir í lengsta hléinu um miðbik lestranna. Kirkjan er öllum opin þennan dag og er fólki frjálst að koma og fara meðan á flutningi stendur.
Séra Hallgrímur Pétursson var sóknarprestur í Saurbæ á árunum 1651 til 1669 og orti Passíusálmana þar og þá. Þeir voru fyrst gefnir út árið 1666.
Passíusálmarnir hafa lifað með þjóðinni allan þennan tíma og þangað hefur fólk sótt lærdóm og huggun og trúarinnblástur. Hallgríms hefur iðulega verið minnst sem prests allrar þjóðarinnar og mesta trúarskálds hennar.
Sigurður Skúlason hefur nokkur undanfarin ár flutt Passíusálmana í heild sinni á föstudaginn langa, fyrst og fremst í Hallgrímskirkju í Saurbæ, en einnig í Grafarvogskirkju og Kópavogskirkju, auk þess sem hann hefur tekið þátt í flutningi þeirra ásamt öðrum í hinum ýmsu kirkjum höfuðborgarinnar.