,,Íslenskt fiskeldi er komið til að vera og hefur alla burði til að verða enn sterkari og öflugri atvinnugrein“
Krisján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hélt ræðu á aðalfundi Samataka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í ræðunni fór ráðherra yfir þau mál sem efst eru á baugi á vettvangi sjávarútvegs og birtum við hér hluta ræðunnar sem að snýr að fiskeldi.
,,Uppbygging fiskeldis hefur verið mikið í umræðunni síðastliðin misseri. Nú liggja fyrir Alþingi tvö frumvörp sem snerta greinina með beinum hætti, annars vegar um breytingar á ýmsum lögum um fiskeldi og hins vegar um gjaldtöku á greinina.
Ég hef í umræðu um fiskeldi vísað til þess að helsti lykilinn að velgengni í norsku fiskeldi er að þeirra mati talin vera samvinna fjögurra lykilþátta, það er stjórnvalda, fiskeldisfyrirtækja, náttúrunnar og vísinda.
Ef við heimfærum þetta yfir á stöðu mála hér á landi þá er augljóst að margt þarf að gera betur. Nú er unnið að því að styrkja þann hluta sem snýr að stjórnvöldum, meðal annars með því að setja á fót samráðsnefnd allra þessara aðila. En ég vil jafnframt skora á ykkar samtök að beita ykkur fyrir því að fiskeldisfyrirtækin tali sem næst einni röddu. Jafnframt þarf að nást meiri samstaða og sátt um hinn vísindalega þátt sem hvílir hjá Hafrannsóknastofnun. Þar þurfa allir – meðal annars stofnunin sjálf – að leggja sitt að mörkum.
Í því samhengi má ekki gleyma því að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað.
Þá verð ég að segja að mér finnst umræðan á stundum með þeim hætti að atvinnugreinin sé ekki að byggjast upp. Að það sé hreinlega allt stopp eða að greinin sé á allra fyrstu árum síns æviskeiðs. Í því samhengi minni ég á að í fyrra voru framleidd rúm 13 þúsund tonn af eldislaxi. Samkvæmt upplýsingum frá eldisfyrirtækjunum er ráðgert að framleiða 45 þúsund tonn árið 2021, eftir tvö ár. Þetta þýðir rúmlega þreföldun á framleiðslu á þremur árum. Þetta myndi þýða að útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2021 yrði svipað og samanlagt útflutningsverðmæti loðnu, kolmunna og makríls var árið 2017. Þetta er stórmerkilegt ef þetta gengur eftir.
Íslenskt fiskeldi er komið til að vera og hefur alla burði til að verða enn sterkari og öflugri atvinnugrein. Ábyrgð stjórnvalda er að skapa greininni þannig lagaumhverfi að það verði vandað til verka í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Stuðla að því að hún sé sjálfbær, í sátt við umhverfið og ákvarðanir verði byggðar á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum. Á þessum grunni verða fiskeldi allir vegir færir.
Á annasömum tímum hættir eflaust fleirum en mér til að dragast niður í úrlausnarefni líðandi stundar. Vill þá oft farast fyrir að skyggnast um og horfa jafnt um öxl sem fram á veginn. Því vil ég nýta þetta tækifæri til að horfa aðeins fram á veginn og segja ykkur frá nokkrum verkefnum sem unnið er að.
Nú stendur yfir vinna við breytingar á stefnu og starfsemi Matís ohf. Markmið þeirrar vinnu er að skerpa á áherslum og hlutverki félagsins – sem á fyrst og síðast að vera að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs. Veigamikill hluti af því er að styrkja tengsl Matís við atvinnulífið og eru uppi áform um að efla starfsemi félagsins á landsbyggðinni þar sem stærsti hluti matvælaframleiðslunnar fer fram. Þetta er spennandi verkefni sem ráðgert er að ljúka á þessu ári.
Annað verkefni sem ég bind miklar vonir við fer af stað á næstu vikum og verður unnið af Sjávarklasanum. Markmið þess er að skyggnast inn í framtíðina – skoða þau tækifæri og áskoranir sem blasa við okkur. Fara yfir þörf á aukinni matvælavinnslu á heimsvísu, hvernig við getum mætt henni og aukið verðmæti sjávarfangs. Hugmyndin er sú að nýta niðurstöðu þessa verkefnis til að undirbyggja langtíma stefnumótun í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar.
Á nýafstaðinni fundarferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins um landið voru málin meðal annars rædd á þessum nótum – framtíð íslensks sjávarútvegs. Um hlutverk stjórnvalda mátti heyra að þau ættu helst að einbeita sér að einu – að vera ekki of mikið fyrir. Og ég held að það sé svolítið til í þessu – stjórnvöld verða að passa sig að vera ekki of mikið fyrir því frumkvæðið og krafturinn býr í fólkinu og fyrirtækjunum, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða.
Eitt af stærstu verkefnum stjórnvalda í þessu samhengi er stuðla að einföldu og skilvirku regluverki. Nú stendur yfir margvísleg vinna sem miðar einmitt að þessu. Má þar nefna heildarendurskoðun á öllum eftirlitsreglum sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en þetta verkefni er í fullum gangi að frumkvæði okkar ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Þá má nefna tillögur starfshóps um heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum en stærstu hluti tillagna hópsins snýst um að einfalda og skýra regluverk. Einn angi þessarar vinnu er að grisja reglugerðarskóginn og má nefna að núna er í samráðsgátt stjórnvalda að finna drög að reglugerðum sem fækka reglugerðum um alls 50.
Loks vísa ég í þessu samhengi til samráðshóps um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem ég bind miklar vonir við. Verkefni hópsins beinast meðal annars að því að taka til athugunar og gera tillögur að úrbótum á sviði verklags og aðferða Fiskistofu varðandi vigtun sjávarafla og brottkast. Hvort nýta megi í ríkari mæli tækni við eftirlit. Yfirfara viðurlagaheimildir og fleira.“
https://www.fti.is/2018/10/10/frumvarp-um-fiskeldi-til-ad-hnekkja-urskurdi-ursk%c2%adurdar%c2%adnefndar-um%c2%adhverf%c2%adis-og-audlinda%c2%admala/