Konan, sem var ásamt eiginmanni sínum sakfelld fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum í Héraðsdómi Reykjaness hefur áfrýjað dómi sínum til Landsréttar. Þetta staðfestir Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, í skriflegu svari til fréttastofu Rúv í dag. Konan hlaut fimm ára dóm en eiginmaður hennar var dæmdur í sex ára fangelsi. Hann hefur einnig áfrýjað dómi sínum til Landsréttar.
Rannsókn málsins hófst þegar dóttir konunnar lagði fram kæru hjá lögreglunni á Suðurnesjum á hendur móður sinni og stjúpföður vegna kynferðisbrota síðasta sumar. Þau voru í framhaldinu úrskurðuð í gæsluvarðhald en konunni var sleppt eftir hálfan mánuð í haldi.
Ákæra í málinu var gefin út 1. október í fyrra og tveimur dögum seinna fór héraðssaksóknari fram á það við Héraðsdóm Reykjaness að konan yrði úrskurðuð í gæsluvarðhald á ný. Embættið sagðist hafa haft tækifæri til að fara yfir gögn málsins og þau brot sem konan væri grunuð um væru mjög alvarleg.
Hjónin voru síðan dæmd í lok síðasta mánaðar en héraðsdómur ákvað að birta dóminn ekki til að hlífa brotaþola í málinu sem væri dóttir konunnar og stjúpdóttir mannsins.
Umræða