Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Maskína vann fyrir samtökin Heimssýn dagana 12.-18. júní eru um 61,25% þeirra sem afstöðu tóku fylgjandi því að Ísland fái undanþágu frá orkulöggjöf Evrópusambandsins en um 38,75% eru andvíg
Athygli hefur verið vakin á því á vef ,,Orkunnar okkar“ að RÚV er sagt hafa kosið að fjalla ekki um könnunina og er farið ófögrum orðum um hlutdrægni RÚV í þessu máli og öðrum og m.a. bent á að RÚV eigi að gæta hlutleysis í þjóðfélaginu.
Þá hafi RÚV oft áður, sérstaklega vitnað í ýmsar kannanir Maskínu sem sé viðurkennt fyrirtæki í greininni, segir m.a. á síðu Orkuhópsins þar sem að RÚV er sagt neita því að birta könnun Maskínu.
,,RÚV hafði ekki til hádegis þennan föstudag birt frétt um skoðanakönnun Maskínu, þar sem fram kom, að 61,25% manna eru fylgjandi því að Ísland fái undanþágu frá orkulöggjöf Evrópusambandsins (og um 53% af þeim, sem afstöðu tóku, vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um innleiðingu orkupakkans).
Ekki finn ég neina frétt á ruv.is um málið. Nú er þetta viðurkennt fyrirtæki á sviði skoðanakannana og áður verið birtar aðrar kannanir þaðan í Rúv.
En hvers vegna ekki núna? Ég hringdi og talaði við unga konu á fréttastofunni allt að 2 mín. í hádeginu og bar fram ósk um birtingu þessarar könnunar og rökstuddi hana rólega og yfirvegað.
Hún sagði að þau væru að ræða málið, menn hefðu ekki verið þar sammála um málið, en ég spurði hvort ekki væri sjálfsagt að birta slíka frétt frá viðurkenndu skoðanakönnunarfyrirtæki, varla ættu skoðanir einstaklinga á fréttastofunni að ráða því hvað birtist — eða teldu þau sig þurfa að fylgja stjórnvöldum í þessu máli? —
þrátt fyrir andstöðu meirihluta landsmanna og ekki sízt meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins og líka hinna stjórnarflokkanna — og ítrekaði ósk um að þau birtu þessa könnun. —
Spurningar vakna: Er það hlutverk Rúv að FELA skoðanakannanir um mikilvæg þjóðmál?
Fréttastofa Rúv misbeitti mjög aðstöðu sinni til afar einhliða málflutnings með Icesave-samningum vinstri stjórnarinnar frá 2009, en lokaði til dæmis á, að formaður og varaformaður Þjóðarheiðurs, 85 manna samtaka gegn Icesave, fengju að koma þar í viðtal. Ætlar fréttastofan aftur að láta standa sig að því að birta bara það sem stjórnvöld kæra sig um að heyrist — og loka á, að vitnisburðir um afstöðu almennings og grasrótarmanna hinna ýmsu flokka fái að heyrast?“ Segir á vef samtakanna.
Í könnuninni sem að um ræðir, kemur jafnframt fram að um 53% af þeim sem afstöðu tóku vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um innleiðingu þriðja orkupakkans en 47% eru því andvíg. Þá sögðust 59% andvíg því að heimila innflutning á fersku eða ófrosnu kjöti en 41% voru því fylgjandi.
Könnun Maskínu fyrir Heimssýn