Það er óhætt að segja að oft hef ég fengið sterk viðbrögð við hinum ýmsu málum sem lúta að hagsmunum launafólks sem ég hef vakið athygli á í gegnum árin. En drottinn minn dýri, viðbrögðin sem ég hef fengið eftir Kastljósþáttinn í gær þar sem fjallað var um þann gríðarlega verðmun á makríl milli Íslands og Noregs eru gríðarleg.
En eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er þessi munur að meðaltali 226% frá árinu 2012 til 2018 en hæst fór verðmunurinn uppí tæp 300% árið 2018.
Aðalmálsvörn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru að gæði makrílsins sem norðmenn veiða sé mun betri en okkar og talaði framkvæmdastjóri SFS um að verið sé að bera saman epli og appelsínur. Þvílíkur útúrsnúningur enda verið að bera saman makríl og makríl en epli og appelsínur eru ekki einu sinni sami ávöxturinn!
Nú hefur mér borist upplýsingar frá sjómönnum að Margrét EA 710 hafi landað makríl í Færeyjum fyrir hálfum mánuði og fengið meðalverð sem var í kringum 150 krónur en á sama tíma er mér tjáð að meðalverð á Íslandi sé í kringum 60 kr.
Það væri fróðlegt að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi útskýri fyrir almenningi af hverju séu greiddar 150 krónur fyrir kílóið í Færeyjum en ef þetta íslenska skip hefði landað í Íslandi hefði verðið verið í kringum 60 krónur.
Ég ítreka það enn og aftur að það er ekki bara að skipverjar verði fyrir tekjutapi vegna þessa heldur verða ríkissjóður og sveitarfélög af gríðarlegum skatttekjum.
Ég skora á stjórnvöld í ljósi þess að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur afhjúpað það svindl og svínarí sem viðgengst í verðmyndun á uppsjávarafla að hefja án tafar opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi.
Eitt er víst að menn hafa hafið opinbera rannsóknir yfir minna tilefni en þessu, enda tekjutap hjá ríkissjóði og sveitarfélögum mælt í milljörðum á umræddu tímabili!