„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingaandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn„
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna, sagði sig úr flokknum eftir 18 ár og um tíma sem framkvæmdastjóri.
Þetta gerði hún þegar ljóst var að Vinstri grænir, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur stofnuðu núverandi ríkisstjórn. Þá lýkti hún slíku ríkisstjórnarformi við ofbeldissamband.
Hún spáði að ríkisstjórnarsamstarfið yrði erfitt og best að leyfa hverjum og einum að vega og meta hvort sú spá hafi ræst en hún sagði þá:
Innviðirnir spilltir
„Sá stjórnarsáttmáli sem kemur útúr viðræðunum verður án efa mjög góður og nánast ómögulegt að hafna honum enda munu Katrín, Svandís og Bergþóra vanda til verka og samstarfsflokkarnir hafa allt að vinna. Eftir stendur að við höfum gengist inná viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar og sú afdrifaríka ákvörðun er tekin.
Við munum ekki breyta Sjálfstæðisflokknum. Innviðir hans eru spilltir og fullir kvenfyrirlitningar og að halda að við breytum honum er meðvirkni í hæsta máta. Sjálfstæðismenn munu fagna stjórnarsáttmálanum, fara inn í sín ráðuneyti og haga sér svo nákvæmlega eins og valdastofnunin hefur alltaf hagað sér.“
Spilling
„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingarandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi.
Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“
Að hennar mati er það mikið farsælla fyrir málstað flokksins að vera í stjórnarandstöðu heldur en ríkisstjórn þegar litið er til langs tíma „jafnvel þó það þýði verstu ríkisstjórn allra tíma til skamms tíma.“
„Ég er döpur og reið en eftir mikla umhugsun þá er mér ómögulegt að taka þátt í þessari vegferð með flokknum sem ég hef verið félagi í í átján ár. Ég óska öllum vinum mínum og fyrrum samstarfsfélögum alls hins besta og vona að ég eigi einhvern tíman afturkvæmt. Ég get ekki kyngt því að við berum ábyrgð á því að koma Sjálfstæðisflokknum til valda eða séum til í að opna þann möguleika. Bara alls ekki.“
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/18/oll-a-austurvoll-laugardag-23-november-kl-14/