Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði fjölda ökumanna um helgina í sérstöku umferðareftirliti embættisins. Um tuttugu þeirra reyndust ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna, en eftirliti með vímuefnaakstri er haldið úti árið um kring. Eftirlitið er gjarnan aukið í aðdraganda jólanna, en því miður sýnir reynsla að full þörf er einmitt á slíku í desember.
Markmiðið með ofangreindu átaki er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunar- og fíkniefnaakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni. Minnt er á að aldrei fer saman að vera undir áhrifum áfengis og/eða annarra vímuefna við akstur. Átakið nær að sjálfsögðu einnig til aksturs undir áhrifum lyfja, en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar.