Eftirfarandi ræðu flutti Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur á mótmælafundinum Lýðræði ekki auðræði – Auðlindirnar aftur í okkar hendur á Austurvelli þann 7. desember.
Dömur mínar og herrar, Fáum eitt algjörlega á hreint hérna: Sjálfstæðisflokkurinn er krabbamein.
Er það ekki alveg hreint ótrúleg tilviljun, að hvert einasta hneykslismál sem gengur yfir Ísland tengist flokknum á einhvern hátt. Og í hvert einasta skipti sem spillingar-sletturnar frussast yfir okkur, eins og gosbrunnur tengdur við rotþró, reyna flokkshollir eftir fremsta megni að hunsa málið, láta ekki ná í sig, gera svo lítið úr því og að lokum að ljúga, fram í bláan dauðan.
Ég ætla að endurtaka, öll hneykslismál, allir skandalar, öll spilling á Íslandi tengist Sjálfstæðisflokknum á einn eða annan hátt.
Það væri þá kannski eðlilegt ef heiðarlegir einstaklingar innan flokksins áttuðu sig á því hverskonar mafíu þeir tilheyra og færu í einhverskonar sjálfsskoðun. En nei. Aldrei í jarðarsögunni hefur krabbamein farið í sjálfsskoðun. Sjálfstæðisflokkurinn er þar engin undantekning.
Í kjölfar hrunsins munaði reyndar minnstu að flokkurinn viðurkenndi fortíð sína, þegar þau héldu landsfund í ársbyrjun 2009. Í nokkrar vikur hafði endurreisnarnefnd flokksins verið að störfum, við það að rýna miskunnarlaust í hvaða mistök forysta flokksins hefði gert, sem hefðu leitt til hrunsins. Aðeins að kíkja í bleyjuna.
En þá mætti hugmyndafræðilegur og andlegur leiðtogi gráðugra frekjukarla á Íslandi, Davíð Oddsson, í pontu og tilkynnti hátt og snjallt að flokkurinn þyrfti ekki að fara í eina einustu naflaskoðun. Hann væri í alveg hreint glæsilegri bleyju. Hrunið hefði átt sér erlendar ástæður og í rauninni ekki tengst Íslandi rassgat. Þessi endurreisnarnefnd og allt hennar pakk gæti bara fokkað sér. Vinur hans, Hannes Hólmsteinn tók sér svo áratug í að komast að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Og þetta kokgleyptu stígvélasleikjurnar. Flokkurinn var fullkominn. Ekkert að sjá hér, nema náttúrulega rauðþrútinn bleyjubruninn.
Þetta var einmitt landsfundurinn þegar náttúrutalentinn í kökuskreytingum, Bjarni Ben, mætti á svæðið. Það er ákveðið afrek að vera með fjármálaráðherra sem er svona vonlaus í viðskiptum. Öll fyrirtæki sem hann stýrði fyrir hrun fóru á hausinn, og þetta voru ekkert einhver „úbs, ég gerði smá gjaldþrot hérna.“ Það þurfti afskrifa um 130 milljarða króna af skuldum þeirra. Það er sko ógeðslega mikill peningur! Til samanburðar kostar íslenska heilbrigðiskerfið 200 milljarða á ári!
Svo eru það skýrslurnar sem Bjarni kæfði, framhjáhaldsvefirnir sem hann var skráður á, skattaparadísirnar sem hann þvertók fyrir að stunda viðskipti á, gögnin því tengdu sem hann tafði að ríkisskattstjóri gæti keypt, frændi hans að kaupa Borgun á undirverði, vafasömu viðskiptin hans með innherjaupplýsingar í aðdraganda hrunsins. Flétturnar, lygarnar. Þvættingurinn og undirferlið. Fyrir utan allt klúðrið sem hefur gerst á hans vakt.
Athugið að þrír ráðherrar Bjarna Ben hafa sagt af sér eða hætt þingstörfum vegna spillingar á meðan hann hefur verið formaður; Hanna Birna, Illugi Gunnarsson og Sigríður „Á-ekki-að-verá-þingi” Andersen. Allan tímann gerði Bjarni lítið úr afbrotum þeirra. Og þá er ótalin barnaníðingshátíðin sem flokkurinn hélt, þar sem allir barnaníðingar sem skráðu sig í flokkinn fengu uppreista æru og sleikjó, sumir hverjir í boði Benedikts, föður Bjarna. Já og Bjarni reyndi að leyna því líka, en það sprakk í andlitið á honum- og ríkisstjórnin hans féll í kjölfarið.
Og þetta er bara bara best-of síðustu ára. Bara núna undanfarin mánuð hefur Útlendingastofnun, undir styrkri stjórn vonarstjörnunnar Áslaugar Örnu, mokað úr landi saklausum barnafjölskyldum sem vilja setjast hér að, helst í skjóli nætur, í hverri einustu viku.
Haraldur Johannessen, sjálfstæðismaður og fyrrum ríkisslögreglustjóri, hótar að leka viðkvæmum upplýsingum um samstarfsmenn sína, sem allir virðast hata hann. Svo frekar en að vera rekinn er honum stjakað úr embætti með fangið fullt af milljónum. Vissulega mjög sorglegt fyrir Harald en vonandi getur hann þurrkað krókódílatárin með öllum seðlunum sínum.
Í öllum þessum uppákomum syngja flokksmenn sjálfstæðiskórsins sama sönginn. Gaslýsa þjóðina. Nei, þetta gerðist ekki. Ef þetta gerðist áttirðu það skilið. Ljúga eins langt og Gosa-nefið á þeim nær.
Og þennan söng sjáum við nú í þessu Samherjamáli, þar sem Bjarni fékk sjálfur að koma með punchline-ið, að svona væru viðskipti einfaldlega í Namibíu. En þar er Bjarni ekki að segja satt frekar en fyrri daginn- eða nóttina. Bjarni Benediktsson er nefnilega svo óheiðarlegur að ég er viss um að hroturnar hans eru líka lygar.
Tveir ráðherrar hafa sagt af sér í Namibíu, að sögn til þess að viðhalda trúverðugleika á stjórnmálum landsins. Handtökur á grunuðum eru hafnar. Á Íslandi segir enginn af sér. Nei, á Íslandi hringir Kristján Þór, sjávarútvegsráðherra, í Þorstein Má, höfuðpaur skandalsins, og spyr „sæll elskan, hvernig hefuru það?“
Og að sjálfsögðu er þrútnasti trúðurinn af þeim öllum, Eyþór Arnalds, vel flæktur í net Samherjamanna. Hugsjónalausasti ljósastauramorðingi allra tíma, sem söng „Þetta fullorðna fólk er svo skrítið“ varð svo á endanum skrítnasta fullorðna manneskja allra tíma.
Athugum að Eyþór eignaðist hlut sinn í Mogganum í gegnum mjög vafasama kúlulánafléttu Samherja, sem átti viðkomu í félaginu Esja Seafood á Kýpur, sem er þungamiðjan í mútugreiðslum Samherjaskandalsins.
Ég ætla að stafa þetta ofan í ykkur. Samherji gaf Eyþóri Arnalds 225 miljónir, svo hann gæti orðið stærsti eigandi Moggans. Og áróðurspésinn Morgunblaðið heldur bara áfram að koma út, hriplekandi útgerðarpeningum, með senílum KuKluxKlan pistlum Davíðs Oddsonar og sprenghlægilegum rasista-teikningum Helga Sigurðarsonar. Og Eyþór Arnalds situr sem fastast, sem oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.
Þetta væri náttúrulega sprenghlægilegt ef þetta væri ekki svona fullkomlega ömurlegt.
Athugum líka að stjórnarskráin, sem Íslendingar kusu um og samþykktu, var stungið ofan í skúffu, og Bjarni Benediktsson sagði síðast árið 2017 að það væri enginn ný stjórnarskrá til. Púff, ekki til! Veldu hönd, neibb, engin stjórnarskrá þarna! Hver elskar ekki smá daður við fasisma?
Og næsta kynslóð jakkalakka bíður gröð í röðum handan við hornið að halda auðráninu áfram. Formaður og varaformaður SUS eru börn núverandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Dóttir Árna Mathiesen er formaður og sonur Páls Magnússonar er varaformaður. Hann skrifaði einmitt BA-ritgerð um Jón Steinar, með hjálp Jóns Steinars, um hvað allir séu alltaf vondir við greyið Jón Steinar. Þessir krakkar eru algjört met! En þetta er ekki þeim að kenna. Ef fyrirmyndirnar þínar eru gjörspilltir mafíósar er ósennilegt að þú breytist í talsmann nýrra tíma með breyttum vinnubrögðum.
Það er ekkert að fara að breytast. Ungur nemur gamall stelur. Af hverju ættu þau líka að breyta einhverju? Sjallar eru alltaf í ríkisstjórn. Eiga öll dómstigin, allt embættismannakerfið, stærstu fyrirtækin, allan kvótann, fasteignir. Allt! Sjálfstæðisflokkurinn á Ísland og er mjög meðvitaður um það. Eins og persónuleikaraskaður ofbeldismaður sem tekur aldrei ábyrgð og gaslýsir fórnarlömbin sín.
En það er alveg sama hversu unglegar og lekkert grímur krabbameinið setur upp, það er jafn banvænt fyrir því. Það er alveg sama hversu ungur dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins er, hún er jafn mikill fasisti fyrir því. Og það er alveg sama hversu margar kökur Bjarni Ben skreytir með sykurmassa, hann er jafn siðblindur rað-lygari fyrir því.
Og hvað ætlum við þá að gera?
Ég veit allavega hvað ég ætla að gera. Kalla hlutina sínum réttum nöfnum.
Og héðan í frá ætla ég að tala um mafíusamtökin Sjálfstæðisflokkinn sem bláa krabbameinið.
Hefur þú áhuga á að sjá Fréttatímanum vaxa og dafna áfram sem frjálsan og óháðan?
Með því að styrkja Fréttatímann mánaðarlega eða einu sinni, stuðlar þú að því.