Veðurhorfur á landinu
Norðvestlæg átt í dag, víða 10-15 m/s en 13-20 á SA- og A-landi síðdegis. Él, einkum N- og V-lands, frost 3 til 10 stig seinni partinn.
Gengur í norðvestan 15-23 m/s á morgun, en mun hægari á SV- og V-landi. Snjókoma fram eftir degi N-lands, annars él, en léttskýjað sunnan heiða. Fer að lægja seinni partinn, áfram kalt í veðri.
Spá gerð: 02.01.2020 10:00. Gildir til: 04.01.2020 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Gengur suðaustan 18-25 m/s með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hlýnandi veður. Snýst í suðvestan 10-18 seinnipartinn með skúrum eða slydduéljum, en léttir til norðaustanlands.
Á sunnudag:
Suðvestanátt, víða 13-18 m/s. Bjartviðri A-lands, annars skúrir eða él. Hægari síðdegis og hiti um frostmark, en vaxandi suðaustanátt syðst um kvöldið.
Á mánudag:
Breytileg átt, hvass vindur á köflum. Slydda eða rigning og hiti 1 til 6 stig, en snjókoma og kólnar V-til á landinu um kvöldið.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðvestanátt með éljum, en úrkomulítið á NA-verðu landinu. Kólnandi veður.
Spá gerð: 02.01.2020 08:04. Gildir til: 09.01.2020 12:00.
Hugleiðingar veðurfræðings
Í dag flæðir kalt heimskautaloft yfir landið og það frystir. Éljabakkar sækja að landinu úr norðri og vestri og geta akstursskilyrði orðið erfið í éljunum. Suðausturland og Austfirðir sleppa að miklu leiti við úrkomuna í dag.
Á morgun (föstudag) er útlit fyrir hvassa norðvestanátt með snjókomu á Norður- og Austurlandi og gæti hríðin orðið nokkuð dimm á þeim slóðum þegar verst lætur. Sunnan heiða er útlit fyrir bjartan dag en kaldan. Vestasti hluti landsins (þar með talið höfuðborgarsvæðið) sleppur einnig við vindinn að þessu sinni.
Á föstudagskvöld hefur veðrið gengið niður og það herðir á frostinu, þá gætu tveggja stafa frosttölur verið að mælast í öllum landshlutum. En þau rólegheit standa ekki lengi því á laugardag er útlit fyrir að gangi í suðaustan storm með hlýnandi veðri. Úrkoman sem fylgir verður líklega snjókoma til að byrja með, en færir sig síðan yfir í slyddu eða rigningu.
Það gengur semsagt á ýmsu næstu daga og veðrið getur haft áhrif á ferðalög, sérílagi ef förinni er heitið milli landshluta.