Notkun ungs fólks á rafrettum (vape), nikótínpúðum/-pokum (pouch) og orkudrykkjum hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið. Við spurðum um notkun landsmanna á þessum vörum og sígarettum og var könnunin gerð dagana 22. – 30. janúar síðastliðinn.
Sígarettur
Tæplega 15% fullorðinna Íslendinga nota sígarettur og þar af nota flestir þær daglega, eða nær 9%. Rúmlega helmingur hefur prófað að reykja sígarettur þó hann reyki ekki í dag en rúmur þriðjungur hefur aldrei prófað að reykja sígarettur.
Fleiri reykja sígarettur daglega meðal þeirra sem eru yfir fertugu en þeirra sem yngri eru, og flestir meðal fólks milli fimmtugs og sextugs. Um helmingur yngra fólksins hefur þó prófað að reykja.
Rafrettur
Rafrettur eru nýrri af nálinni og færri nota þær, eða rétt rúmlega 5%, og tæplega helmingur þeirra notar þær daglega. Nær 3% til viðbótar nota þær stundum en hátt í fjórðungur hefur auk þess prófað þær. Nær sjö af hverjum tíu hafa aldrei prófað að reykja rafsígarettur.
Karlar eru líklegri en konur til að hafa prófað rafrettur. Af þeim sem nota þær daglega eru flestir undir þrítugu, og fólk er líklegra til að hafa prófað þær eftir því sem það er yngra. Nær einn af hverjum tíu undir þrítugu notar rafrettur og um 49% til viðbótar hafa prófað þær. Þeir sem kysu Miðflokkinn eða Framsóknarflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru ólíklegri til að hafa prófað rafrettur en þeir sem kysu aðra flokka.
Nikótínpúðar
Nikótínpúðar eru enn nýtilkomnari en hafa þó náð vinsældum meðal ungs fólks. Rúmlega 6% fullorðinna nota þá, og þar af nota ríflega 4% þá daglega, sem eru fleiri en nota rafrettur. Tæplega 2% til viðbótar nota þá stundum og um einn af hverjum tíu hefur auk þess prófað þá. Færri hafa þó heyrt um nikótínpúða en rafrettur, en næstum 12% hafa aldrei heyrt um þá. Karlar eru líklegri en konur til að nota nikótínpúða, og til að hafa prófað þá. Eins eru konur ólíklegri en karlar til að hafa heyrt um þá. Fólk er einnig líklegra til að nota nikótínpúða, og til að hafa prófað þá, eftir því sem það er yngra. Nær 17% fólks undir þrítugu notar nikótínpúða og um 24% til viðbótar hafa prófað. Eldra fólk er að sama skapi ólíklegra til að hafa heyrt um þá en yngra fólk. Þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn, Pírata eða Viðreisn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru loks líklegri til að nota nikótínpúða en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eru ólíklegastir til að hafa heyrt um nikótínpúða.
Orkudrykkir
Hátt í þrír af hverjum tíu nota orkudrykki, eða rúmlega 28%, en þar af nota einungis ríflega 4% þá daglega. Nær fjórir af hverjum tíu hafa auk þess smakkað orkudrykki en um þriðjungur hefur aldrei smakkað þá. Ekki er munur milli kynja á hlutfalli þeirra sem nota orkudrykki daglega en karlar nota frekar orkudrykki stundum en konur. Fleiri konur en karlar hafa aldrei smakkað orkudrykki. Yngra fólk er mun líklegra til að drekka orkudrykki en þeir sem eldri eru, en 65% fólks undir þrítugu notar þá og þar af notar einn af hverjum tíu þá daglega. Fólk í elstu aldurshópunum er mun líklegra til að hafa aldrei smakkað orkudrykki en þeir sem yngri eru. Þeir sem kysu Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að nota orkudrykki en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem kysu Vinstri græn eða Sjálfstæðisflokkinn eru þó líklegri til að drekka þá daglega. Þeir sem kysu Miðflokkinn eru ólíklegastir til að hafa smakkað orkudrykki.
Spurt var:
- Hvað af eftirfarandi á best við um notkun þína á eftirfarandi í dag? Sígarettum, Rafsígarettum (vape), Nikotínpúðum/-pokum (pouch), Orkudrykkjum.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 22. – 30. janúar 2020.
Þátttökuhlutfall var 54,4%, úrtaksstærð 1.567 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.