Heilbrigðisfyrirtækið Sidekickhealth hefur í samstarfi við Landspítala, CCP og fleiri þróað nýtt kerfi sem meðal annars gefur COVID19-sjúklingum færi á að senda upplýsingar um líðan sína til meðferðaraðila hjá spítalanum.
Meirihluti COVID19-sjúklinga tekst á við veikindin í heimahúsum, en þeir eru í dag á níunda hundrað talsins. Mikinn mannafla þarf til að fylgjast með líðan þessara sjúklinga og þróun einkenna. Ýmsum lausnum í fjarheilbrigðisþjónustu er beitt til að fylgjast með sjúklingahópnum, þar má nefna fjarfundi og símtöl. Nú hefur Sidekickhealth-kerfið og samnefnt smáforrit eða app bæst við þetta lausnamengi hjá Landspítala.
Kerfið verður tekið í notkun í þrepum, en prófanir og notkun hafa gefið góða raun og fleiri deildir Landspítala skoða nú kerfið með hagnýtingu í huga. Lausn Sidekickhealth er CE-merkt lækningakerfi og uppfyllir alla nauðsynlega öryggisstaðla, ásamt því að gæta persónuverndar samkvæmt GDPR. Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir COVID19-göngudeildar Landspítala, og Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekickhealth kynntu kerfið.
Kerfið virkar þannig að sjúklingar svara einkennamatslista daglega og senda inn upplýsingar um líðan sína gegnum smáforrit. Heilbrigðisstarfsfólk notar síðan vefgátt til að fylgjast með þróun einkenna og metur hvort inngrips sé þörf með stuðningi reiknirits eða algóryþma sem aðstoðar við að túlka áhættuna. Gegnum smáforritið geta sjúklingar einnig átt samskipti við heilbrigðisstarfsfólkið og fengið ýmsar upplýsingar og stuðning í formi myndbanda og textaskilaboða.
Sidekickhealth er tuttugu manna sprotafyrirtæki sem var stofnað fyrir sex árum og hefur viðskiptavini um víða veröld. Hversdags þróar fyrirtækið stafrænar heilbrigðismeðferðir, þar sem tækninni er beitt til þess að bæta meðferð sjúklinga með ýmsa langvinna sjúkdóma.