,,Dæmið um Chile er einmitt rakið í þessari bók og það er ekki fögur lýsing“
Laxeldi er meðal þeirra atvinnugreina sem margir horfa nú til að geti orðið til atvinnusköpunar í því kreppuástandi sem nú er að skapast. Á dögunum kom út ný bók um þessa framleiðslugrein. Hún heitir „Undir yfirborðinu.“ Undirtitill bókarinnar er svo „Norskra laxeldisævintýrið – Lærdómur fyrir Íslendinga?“ Höfundur bókarinnar er norska blaðakonan Kjersti Sandvik en hún starfar við norska sjávarútvegsblaðið Fiskeribladet (áður Fiskaren). Þýðandi bókarinnar er Magnús Þór Hafsteinsson.
Í texta á baksíðu bókarinnar segir að laxeldið hafi nú verið stundað við Noreg í um hálfa öld og teljist nú einn af máttarstólpum norsks atvinnulífs. Það hafi treyst byggð í dreifbýli og leitt til ofsagróða þeirra sem að því standi. Margvíslegur umhverfisvandi hafi hins vegar hlotist af laxeldinu í Noregi. Því fylgi mikil vandamál vegna laxalúsar sem leggist bæði á eldislaxa og villta laxa, megnun vegna úrgangs og gríðarlegur fjöldi eldislaxa hafi sloppið úr kvíum út í náttúruna þar sem þeir blandist villtum laxi með slæmum afleiðingum. Síðan hafi sjúkdómar í eldisfiskinum reynst erfiðir viðureignar. „Þeir hafi farið nærri því að ganga frá laxeldi bæði í Noregi, Færeyjum og Chile í Suður-Ameríku. Dæmið um Chile er einmitt rakið í þessari bók og það er ekki fögur lýsing,“ segir þýðandi „Undir yfirborðsins.“
„Það er ekki algengt að það komi út bækur um sjávarútvegsmál á Íslandi, hvað þá að þær fjalli um laxeldi. En hér er þessi komin, 400 blaðsíður með 284 aftanmálsgreinum með tilvitnunum í heimildir og til frekari skýringa. Ég þýddi hana vegna þess að mér þótti bókin innihalda upplýsingar sem bráðnauðsynlegt er að koma á framfæri hér á Íslandi. Í stórum dráttum segir hún frá norsku laxeldi, bæði því sem vel hefur tekist, en líka hinu sem hefur farið miður. Hún er ekki skrifuð af neinum hagsmunaaðila heldur af einum reyndasta fiskeldisblaðamanni Noregs, sem vill bæði laxeldinu og umhverfinu vel. Kjersti Sandvik hefur lifað og hrærst með þessari grein í aldarfjórðung. Í bókinni er hún gagnrýnin á margt, enda svo sem af nægu að taka.
Norska laxeldið hefur skilað miklu en það hefur líka sett sín spor á umhverfið þar sem ýmsar uppákomur hafa átt sér stað, en líka ýmis spilling með braski á eldisleyfum og hagsmunagæslu af ýmsu tagi þar sem þræðirnir liggi alveg upp á efstu tinda norskra stjórnmála og stjórnsýslu. Laxeldi við Noreg er nú fast í 1,3 milljóna tonna ársframleiðslu og þannig hefur það verið um nokkurra ára skeið. Ástæðan er að menn treysta sér ekki til að leyfa meira eldið við stendur landsins því náttúran þar þoli ekki meira álag. Þetta er ein ástæða þess að Norðmennirnir eru komnir með sína tækni, tól, lax og fjármagn til Íslands,“ segir Magnús Þór. Hann er sjálfur menntaður í fiskeldis- og fiskifræðum frá norskum háskólum.
„Við verðum að gá að því að nú eru stórfyrirtæki í norsku laxeldi komin til Íslands þar sem þau hasla sér völl í fjörðum okkar, bæði fyrir vestan og austan, í fyrirtækjum þar sem þau eru aðal eigendur með hreinan meirihluta. Hér nota þeir sömu aðferðir og þeir hafa beitt við Noreg, og þeir ala sama fisk. Eldislaxinn þeirra er af norsku kyni. Það má ætla að sömu líffræðilegu og vistfræðilegu vandamál og menn hafa glímt við í Noregi, verði líka til ama hér við land, og þá erum við ekki einu sinni farin að ræða aðra þætti á borð við ís, kulda og veður. Reynslan til þessa bendir reyndar til að vandamálin ætli að endurtaka sig hér við land. Laxalúsin hefur látið á sér kræla og göt ítrekað rifnað á eldiskvíum,“ segir Magnús Þór og bætir við: „Það sem ég vil koma á framfæri er að við verðum að gera kröfur um að menn vandi sig í laxeldinu, að við forðumst að endurtaka það sem hefur farið úrskeiðis við Noreg og víðar.
Sagan sýnir að þessari grein verður að sýna mikið og strangt aðhald. Geysi miklir hagsmunir eru í húfi, ekki bara í sjálfu eldinu, heldur líka og alls ekki síst hvað snýr að villtum laxastofnum hér á landi. Í þeim eru fólgin mikil verðmæti og laxveiðin skilar þegar í dag afar mikilvægum tekjum inn í íslenskt samfélag, ekki síst landbúnaðarbyggðir víða um land. Það er fjöregg sem við megum alls ekki setja í hættu.“
Magnús segir að skoða verði með opnum huga hvort ekki sé tímabært að þróa nýjar tæknilausnir í eldinu, svo sem lokaðar kvíar í sjónum. „Við sjáum að umræðan er farin að snúast um þetta í Noregi, greinin er að prófa sig áfram og málsmetandi menn innan hennar hafa tekið undir slík sjónarmið. Þetta er líka niðurstaða Kjerstiar Sandvik höfundar bókarinnar. Hún telur að eldi í opnum netkvíum sé fullreynt og slíkt gangi ekki til framtíðar vegna þess að umhverfisvandamálin séu svo mikil.“
Magnús Þór segir að tæpt sé á mjög mörgu í bókinni. Hún vakti verulega athygli þegar hún kom út í Noregi 2016 og vann þar til verðlauna. „Íslenska útgáfan er uppfærð frá því bókin kom út. Það er bætt við upplýsingum um þróun mála frá 2016, og gerðar lítils háttar styttingar á upphaflega norska textanum. Síðan bætti ég við ýmsum fróðleik í aftanmálsgreinum með íslenska lesendur í huga,“ segir Magnús. Hann bætir við að lokum að hér sé á ferðinni bók sem ekkert áhugafólk um þjóðfélagsmál, atvinnulíf og hreina íslenska náttúru megi láta fram hjá sér fara.
„Undir yfirborðinu“ fæst í öllum bókaverslunum. Bókafélagið Ugla gefur út.