Fréttatilkynning 12. maí 2020
Arion banki og Seðlabanki Íslands hafa skrifað undir samning um veitingu viðbótarlána til fyrirtækja. Viðbótarlánin sem njóta ríkisábyrgðar að hluta eru ætluð fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu og ófyrirséðu tekjutapi vegna COVID-19.
Samkvæmt samningnum við Seðlabankann þurfa fyrirtæki að uppfylla ýmis skilyrði þannig að Arion banki geti veitt þeim lán með allt að 70% ábyrgð ríkissjóðs. Meðal helstu skilyrða er að ófyrirséð tekjutap vegna COVID-19 nemi að lágmarki 40% og að launakostnaður hafi verið a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka: „Við höfum unnið ötullega að því síðustu vikur að koma til móts við okkar viðskiptavini með margvíslegum hætti. Eitt helsta úrræðið fyrir fyrirtæki hefur snúið að því að koma þeim í greiðsluhlé og eru nú um 9% fyrirtækjalánasafns bankans í greiðsluhlé.
Við horfum einnig til lánveitinga til að hjálpa fyrirtækjum að komast í gegnum þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi. Stuðningslánin sem stjórnvöld hafa kynnt geta gagnast minni fyrirtækjum og viðbótarlánin sem við höfum nú samið við Seðlabankann um eru valkostur fyrir meðalstór og stærri fyrirtæki sem uppfylla skilyrðin.“