Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hyggst beita sér fyrir því að strandveiðar verði leyfðar í september. Ef lagabreytingu þurfi til segist hún treysta á jákvæð viðbrögð á Alþingi. Strandveiðar voru stöðvaðar 20. ágúst þegar strandveiðiflotinn hafði veitt þær aflaheimildir sem ætlaðar voru til veiðanna í ár. Þetta var tæpum tveimur vikum fyrir áætlaðan tíma og olli mikilli reiði meðal sjómanna. Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda hefur sagt nauðsynlegt að grípa til aðgerða þegar Alþingi kemur saman nú í vikunni. Þetta kemur fram á vefnum ruv.is
Þar segir jafnframt að hún telji möguleika innan kerfis að leyfa strandveiðar en Lilja Rafney Magnúsdóttir er formaður atvinnuveganefndar og á von á að þetta verði rætt í nefndinni. „Minn vilji hefur staðið til þess og ég hef gert ráðherra grein fyrir því að það sé möguleiki á sveigjanleika í kerfinu, þessu 5,3 prósentum, til þess að opna á strandveiðar í september.“ Segir hún í viðtali við Rúv. Hún segir mikilvægt, í þeim aðstæðum sem nú eru í þjóðfélaginu, að styðja við strandveiðar og efla störfin sem þar eru. „Það má búast við því að þeir aðilar sem hætti strandveiðum núna, fari á atvinnuleysisbætur. Okkur veitir ekkert af því að reyna að halda öllum störfum í virkni eins og hægt er.“
https://gamli.frettatiminn.is/formadurinn-hvetur-alla-strandveidisjomenn-ad-skra-sig-atvinnulausa-a-morgun/