Samtals voru 52 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, tekin til gjaldþrotaskipta í júlí síðastliðnum. Af þeim voru 29 með virkni árið 2019, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.
Á síðustu 4 mánuðum, eða frá apríl til júlí, voru 285 fyrirtæki lýst gjaldþrota. Af þeim voru 153 virk á fyrra ári sem er 42% fleiri en þau voru á sama tímabili árið 2019. Þar af voru 40 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 22 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, 46 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 45 í öðrum atvinnugreinum.
Fyrirtæki sem urðu gjaldþrota á tímabilinu frá apríl til júlí voru með um 1320 launþega að jafnaði árið 2019, þar af voru um 530 launþegar á fyrra ári í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og um 550 í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Þetta er 50% aukning frá fjölda launþega fyrirtækja sem urðu gjaldþrota á sama tímabili árið 2019 og svipaðar tölur og sömu mánuði árið 2010. Covid-19-faraldurinn á Íslandi fór að gera vart við sig um mánaðamótin febrúar-mars og var í apríl brostinn á af fullum þunga.
Gjaldþrot og virkni fyrirtækja eftir mánuðum 2009-2020 (xlsx)
Upplýsingar um gjaldþrot skráðra fyrirtækja er að finna í töflunni: Gjaldþrot fyrirtækja eftir mánuðum og bálkum atvinnugreina 2008-2020