Heimilt verður að dæma eltihrella í allt að fjögurra ára fangelsi, verði frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, að lögum. Hún segir að núgildandi lög séu ekki nægileg vernd við umsáturseinelti í samtali við Ríkisútvarpið.
Frumvarpið er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og í því er lagt til að nýju refsiávæði verði bætt við almenn hegningarlög. Samkvæmt drögum frumvarpsins skal hver sá sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um aðra manneskju og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða, sæta sektum eða fangelsi í allt að fjögur ár, segir í frétt Rúv. Þá má geta þess að refsirammi fyrir t.d. rangar sakargiftir er 2-16 ára fangelsi, eftir alvarleika ásakana, en aldrei styttri en 2 ára fangelsi, en eltihrellar kunna að vera sekir um fleiri brot samtímis því sem þeir ofsækja fólk, eðli máls samkvæmt.
Nálgunarbann ekki nægjanleg vernd
Dómsmálaráðherra segir að nálgunarbann sé ekki nægjanleg vernd við umsáturseinelti, sem eigi sér margar birtingarmyndir. „Það er ekki alltaf þannig að aðilar þekkist eða háttsemi sem varðar beint við þau hegningarlagaákvæði sem við erum með í dag, eins og með hótanir og ofbeldi. Háttsemin getur verið margvísleg og við höfum séð það í dómaframkvæmd að ákvæðin sem eru fyrir í dag hafa ekki nýst sem nægileg vernd til að vernda þann rétt að fólk geti gengið um í samfélaginu óáreitt,“ segir Áslaug Arna í viðtalinu.
Þá kemur jafnframt fra að í frumvarpsdrögunum segi að umsáturseinelti geti bæði beinst að manneskju sem gerandinn sé í tengslum við, sem og að bláókunnugum. Reynslan hafi sýnt að þeir sem hafi í frammi umsáturseinelti beini því ekki endilega eingöngu að tilteknum manni heldur til viðbótar að öðrum einstaklingum sem tengjast honum, eins og fjölskyldu, vinum eða samstarfsmönnum.