Vestfjarðaleiðin er 950 km ferðaleið um Vestfirði og Dalabyggð með einstökum áningarstöðum og upplifunum
Dýrafjörður á Vestfjörðum markar formlega opnun Vestfjarðaleiðarinnar við vígslu Dýrafjarðarganganna þann 25. október en göngin munu tengja betur saman norður og suður hluta Vestfjarða en mynda um leið nýja 950 km ferðaleið sem hefur fengið nafnið Vestfjarðaleiðin. Ekki verður lengur þörf á að aka Hrafnseyrarheiði sem iðulega er lokuð að vetri til en leiðin styttist einnig verulega, um 26 km en Dýrafjarðargöng eru 5,6 km löng.
Með Dýrafjarðargöngunum fæst heilsársleið um þetta sérstæða svæði menningar og náttúru sem fyrir margt löngu hefur þróast menningarlega með svipuðum hætti og Vestfirðirnir sjálfir sem skaga út úr Íslandi til vesturs. Vestfjarðaleiðin er þannig meira en bara hringleið, hún er ferðaleið með stórbrotnu landslagi, dýralífi, sögu, afþreyingu og menningu en fangar líka lífssýn íbúa svæðisins og lífsstíl sem er um margt frábrugðin þeim hefðbundna íslenska.
Vestfjarðaleiðin er einkennandi fyrir þróun lands og lífs á svæðinu
Vestfirðirnir eru einn elsti hluti landsins, mótaðir af umróti ísaldar fyrir 10 þúsund árum síðan. Djúpir firðir og skörðótt fjöll með dölum og láglendi hafa þannig mótast af náttúruöflunum líkt og íbúar svæðisins sem hafa tileinkað sér eigin lífsfærni í takt við kröfur náttúrunnar. Það er Vestfjarðaleiðin.
Vestfjarðaleiðin er stutt frá Reykjavík og Akureyri og er því aðgengilegur og áhugaverður valkostur sem ferðaleið þar sem auðvelt er að kanna króka og kima svæðisins og upplifa óspillta náttúru og víðerni sem sífellt verður erfiðara að finna.
“Vestfjarðaleiðin, er hiklaust freistandi ferðaleið fyrir erlenda stórborgarbúa og ævintýragjarna ferðalanga um allan heim, sérstaklega um þessar mundir. Hrein og frískandi náttúra er algjör andstæða þéttbýlla borga nútímans og er því líka kjörin flóttaleið frá amstri dagsins. Fólkið í Dalabyggð og á Vestfjörðum lifir í meiri sátt við umhverfi sitt heldur en gengur og gerist og Vestfjarðaleiðin endurspeglar það, bæði andlega sem efnislega. Þetta strjábýla landsvæði er fullkomið til að sökkva sér í núvitund“ segir Díana Jóhannsdóttir frá Vestfjarðastofu.
Meira njóta en þjóta
Vestfjarðaleiðin er náskyld lífsháttum á svæðinu. 950 km ferðaleiðin snýst um að njóta fremur en þjóta. Það er jafnramt stór kostur að Vestfjarðaleiðin er hringleið þannig að alltaf ber eitthvað nýtt fyrir sjónir, framandi uppgötvanir – meira að segja fyrir Íslendinga.
„Það er frábært að fá loksins ferðaleið um svæðið sem gerir mannlífi, menningu, sögu og náttúru eins hátt undir höfði og Vestfjarðaleiðin gerir“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri í Dalabyggð
„Vestfirðir eru sannkölluð útivistarparadís, hér ættu allir að finna eitthvað sem hentar þeirra áhuga og getu til útivistar. Vestfjarðaleiðin, sem er í senn tilvísun til þess hvernig Vestfirðingar gera hlutina sem og leiðarinnar umhverfis Vestfirði, leiðir fólk áfram um þennan gríðarstóra leikvöll sem Vestfirðir eru. Hvort sem er fyrir unga eða aldna, það eru fjöll til að klifra, firðir til að róa á og slóðar til að hjóla. – Rúnar Karlsson, eigandi Borea Adventures.
„Vestfjarðaleiðin er gríðar stórt og mikilvægt skref í átt að samvinnu ferðaþjóna umhverfis Vestfirði og tengingu við nágranna okkar í Dölunum. Bæði þegar kemur að tengslamyndun ferðaþjóna á milli en ekki síður er kemur að tengingu ferðamannsins við Vestfirði og Dali, fólkið sem þar býr og hið daglega líf á svæðinu.“ Gunnþórunn Bender, eigandi Westfjords Adventures
Um Vestfjarðastofu
Vestfjarðastofa er sjálfseignarstofnun sem tók við verkefnum sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga sinntu áður. Undir Vestfjarðastofu heyrir einnig Markaðsstofa Vestfjarða og menningarfulltrúi Vestfjarða. Stofnfundur Vestfjarðastofu var 1. desember 2017.
Tilgangur Vestfjarðastofu er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnu- og byggðaþróun, frumkvöðlastarfsemi og menningu í víðum skilningi.
Markmið Vestfjarðastofu er að efla atvinnulíf á Vestfjörðum, stuðla að velferð íbúa og styrkja Vestfirði sem búsetukost og áfangastað ferðamanna. Markmiði sínu hyggst Vestfjarðastofa ná með öflugu samstarfi atvinnulífs, sveitarfélaga, ríkisvalds og stoðkerfis hins opinbera. www.westfjords.is
Skoða myndir og fylgjast með #Westfjords #TheWestfjordsWay @VisitWestfjords
Um Markaðsstofu Vesturlands
Hlutverk Markaðsstofunnar er að samþætta markaðs- og kynningarstarf á Vesturlandi, þannig að markaðssetning landshlutans sé unnin á einum stað í samstarfi ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga, klasa og samtaka innan svæðisins. Markmið stofunnar er að styrkja ímynd Vesturlands og kynna svæðið sem ákjósanlegan áfangastað fyrir ferðamenn. www.west.is
Hlustaðu á Vestfjarðaleiðina: Finndu lagalistann á Spotify; “The Westfjords Way”
Myndabanki: https://www.westfjords.is/en/inspiration/photos/vestfjardaleidin-thewestfjordsway-press-photos