Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í september og hefur síðan setið á Alþingi utan flokka er gengin til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar. Rósa Björk sat sinn fyrsta þingflokksfund núna klukkan eitt. Hún gekk inn á fundinn við dynjandi lófatak þingflokksins. Rósa Björk studdi ekki ríkisstjórnarsamstarf núverandi stjórnarflokka í nóvember 2017 en það gerði heldur ekki Andrés Ingi Jónsson en hann er enn utan flokka á Alþingi. Fréttin birtist fyrst á Rúv en í kjölfarið sendi Rósa Björk frá sér yfirlýsingu nú á öðrum tímanum sem er svohljóðandi:
„Í dag gekk ég til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar en ég hef verið óháður þingmaður á Alþingi síðastliðna 3 mánuði. Pólitískar áherslur mínar og Samfylkingarinnar eru nátengdar með mikilvægi á aukinn jöfnuð í samfélaginu þar sem allir geta notið sín á eigin forsendum, burtséð frá stétt eða stöðu en líka á frið og sjálfbærni og opið, framsækið og fjölbreytt samfélag með áherslu á virka fjölþætta utanríkisstefnu.
Að undanförnu hefur Samfylkingin að auki lagt mun meiri og skýrari þunga á loftlagsmálin, og umhverfismálin en áður og lagt fram góða áætlun um græna viðspyrnu út úr Covid-19 kreppunni. Það gerir útslagið fyrir mig þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun um að ganga í Samfylkinguna og þingflokk hennar. Ég hlakka mjög mikið til að taka þátt í starfi Samfylkingarinnar og að leggja mitt á vogarskálarnar til að bæta íslenskt samfélag“ segir í yfirlýsingunni.
Samfylkingin hefur þar með átta sitjandi þingmenn. Ríkisstjórnin hefur þar með aðeins þriggja þingmanna meirihluta eða aðeins 33 þingmenn á móti 30 í stjórnarandstöðu.