Óvissustigi almannavarna vegna hættu á skriðuföllum er í gildi á Austurlandi. Neyðarstig almannavarna á Seyðisfirði – Rýming í gildi og umferð óheimil. Hættustig almannavarna á Eskifirði – Rýming að hluta í gildi.
Seyðisfjörður:
Ákveðið hefur verið að óheft umferð um Seyðisfjörð verði óheimil í dag. Dagurinn verður nýttur til þess að meta umfang skriðufalla síðustu daga auk hættu á frekari skriðuföllum. Auk þess þarf að meta umfang tjóns og stöðu mikilvægra innviða á Seyðisfirði. Það verður gert undir eftirliti lögreglu með hjálp björgunarsveita.
Neyðarstig almannavarna er enn í gildi á Seyðisfirði eftir að aurskriður féllu á bæinn í gær. Bærinn var rýmdur og voru íbúar og aðrir fluttir í fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum. Minnst ellefu hús hafa orðið fyrir skemmdum. Frekara tjón verður metið í dag.
Ein skriða féll innan við Búðará snemma í morgun en ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum. Sú skriða gefur vísbendingar um að enn sé óstöðugleiki í jarðlögum.
Eskifjörður:
Ákveðið hefur verið að halda rýmingum á Eskifirði í dag. Hús við nokkrar götur voru rýmd síðdegis í gær þegar í ljós kom að sprungur í gamla Oddskarðsveginum, ofan við bæinn, höfðu stækkað. Sérfræðingar frá ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands,
Vegagerðinni og Fjarðabyggð meta aðstæður á vettvangi í dag. Vonast er til að niðurstaða liggi fyrir fljótlega eftir hádegi. Næsta tilkynning vegna rýmingar þar verður send út á milli klukkan 13 og 14 í dag.
Myndir eru frá ríkislögreglustjóra vettvangi á Seyðisfirði í morgun.