Við erum tilbúnir að standa við okkar tilboð og getum gert það auðveldlega og samt rekið okkar skip og útgerð með hagnaði. Enda mjög skiljanlegt þegar við þurfum ekki lengur að sækja kvóta til útgerða sem gera út á okkur leiguþrælana og selja okkur leigurétt sinna aflaheimilda á 240.000 kr tonnið en borguðu samt aðeins 15.000 kr í auðlindagjald til þjóðarinnar.
Svo eigandi kvótans (þjóðin) átti sig á því hversu miklu hún er að tapa, þá eru t.d. útgerðamenn sem leigja frá sér 100 tonn á 24 milljónir á hverju ári, og áratugum saman og stinga þeim milljónum beint í vasann án þess að gera nokkuð við þann kvóta sem þeir eru áskrifendur að, en að hirða kvótaleigu. Leiguliðinn borgar svo að auki 1,5 milljón í veiðigjald að hámarki og jafnvel ekki krónu til þjóðarinnar, þar sem veiðigjaldið er afkomutengt.
Þetta eru aflaheimildir sem kvótaþegarnir ætluðu ekki að veiða. Heldur var ásetningur þeirra að fá auðlindina nánast gefins frá þjóðinni svo þeir gætu selt hana hæstbjóðanda á kvótalausum skipum sem við köllum í dag þræla kvótakerfisins. Þetta vilja ráðamenn kalla gott kerfi og standa diggan vörð um það, sérstaklega þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn. Gjafakvótakerfið er lögverndað fyrir fáa útvalda og brotið á eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.
Fyrir hverja er það gott. Ekki þjóðina alla vega sem er svelt í öllum velferðarkerfum þjóðfélagsins. Enda er ákall þjóðarinnar að verða sterkara til að fá raunverulegar tekjur af auðlindum sínum. Sem þjóðin gæti notað til uppbyggingar fyrir sjálfa sig í innviði þjóðfélagsins.
https://gamli.frettatiminn.is/06/06/2021/fimmfalt-haerra-veidigjald-til-thjodarinnar-sem-a-audlindina-er-gjafverd-til-utgerdarinnar/