Einn reyndasti og þekktasti bílasali á Íslandi undrast að 1300 manns hafi komið fljúgandi til Íslands, sumir hverjir á einkaþotum, til þess að segja okkur að hætta að keyra bílana okkar og menga.
Guðfinnur Stefán Halldórsson, betur þekktur sem Guffi á bílasölu Guðfinns opnaði bílasölu í Reykjavík fyrir um hálfri öld. Reynslumeiri menn eru vandfundnir en Guðfinnur hóf störf við bílasölu árið 1969 og hefur því upplifað allar þær breytingar sem hafa orðið síðan þá og hann setur spurningamerki við ráðstefnu um loftlagsmál og mengun sem haldin er í Reykjavík.
Alveg á þessi athugasemd Guffa vel við, hefði ekki prinsinn sem kom fljúgandi á einkaþotu til landsins og er búinn að vera í fríu fæði t.d. á Bessastöðum og húsnæði, ekki bara getað hringt? Eða jafnvel notað Skype, Zoom eða alla þá tækni sem nú er í boði? Þarf þessi hópur virkilega að menga svona rosalega með óþarfa ferðalagi á tölvuöld þegar það er óþarfi?
1300 trúbræður prinsins um yfirvofandi heimsendi vegna veðurfars komu einnig fljúgandi hingað norður á hjara veraldar með tilheyrandi ofurmengun. Til eyju, þar sem við öndum að okkur ferskri og tærri norðanáttinni í miklu magni, yfirleitt í svona ca. 15 til 20 m/s. skammti í einu alla daga ársins, stundum meiri.
Ég tek heilshugar undir með Guffa sem er gamalreyndur og sér ruglið þegar það blasir við okkur, enda rökfastur og klár maður.
Þurfum við virkilega að fá hingað mengandi 1300 manna hóp, fljúgandi á einkaþotum til Íslands, frá stóborgum, í snobb- og kokteilboð, til að drekka úr einnota kokteilglösum og segja okkur hinum, hér, í ör- ríki, norður í hafi að hætta að menga með því að norpast á milli staða í bílum?
,,Við hjá Bílasölu Guðfinns erum tilbúnir að finna handa þér betri bíl sem frúin getur hlegið í !“ Segir á heimasíðu bílasölunnar en það er akkúrat það sem Guffi hefur gert undanfarna áratugi eins og elstu menn muna enda er Guffi topp maður og veit sínu viti.
Hér að neðan er auglýsing í lit, sem fólk horfði á í svarthvítum sjónvarpstækjum og síðar í litatækjum í denn. Síðan þá, hafa batteríisdruslur verið fjöldaframleiddar og alvöru bílum fækkað, en það er nú bara mín skoðun 🙂 En ég deili hér með skoðun minni og hneykslan á þessari 1300 manna sendinefnd sem er eins mikið ósamkvæm málstaðnum eins og hægt er með þessu óþarfa mengandi ferðalagi sínu á milli heimsálfa. Hví komu þau ekki bara á seglskipi? Líklega allt fólk á tímakaupi og ríkisspenanum hvort sem er. Góða helgi 🙂