Íbúar í Hveragerði og nágrenni urðu vel varir við þegar jarðskjálfti varð í nágrenni bæjarins, laust fyrir klukkan hálftvö í nótt. Mælingar Veðurstofunnar sýna að skjálftinn var 3,3 að stærð og að upptökin voru í Reykjadal, á vinsælli gönguleið um það bil fjóra kílómetra norð-norðvestur af Hveragerði.
Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í viðtali við Rúv, að engin eftirskjálftavirkni hafi mælst enn og ekkert bendi til annars en að þetta hafi verið stakur skjálfti.
Hún sagði að nokkrar tilkynningar um skjálftann hafi borist Veðurstofunni frá Hveragerði. Skjálftann virtist vera óvenju lengi en ekki hafi tjón orðið á innanstokksmunum þó svo hristingurinn hafi verið talsverður.
Umræða