Varnarmálaráðherrar Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og utanríkisráðherra Íslands fylgdust í dag með varnaræfingunni Cold Response 2022 sem nú stendur yfir í Norður-Noregi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir einhug ríkja á meðal Norðurlanda um að efla samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála enn frekar, í ljósi gerbreyttrar stöðu öryggismála.
Cold Response 2022 er reglubundin varnaræfing á vegum Atlantshafsbandalagsins sem Noregur á veg og vanda af að skipuleggja. Æfingin í ár er sú umfangsmesta sem fram fer á vegum bandalagsins í ár. Um 30.000 þátttakendur frá 27 ríkjum eru nú í Norður-Noregi til að æfa varnarviðbrögð og samstarfsgetu á landi, í lofti og á hafi úti, við erfið veðurskilyrði eins og heiti æfingarinnar gefur til kynna.
Ráðherrarnir heimsóttu í dag bækistöðvar Finnlands og Svíþjóðar á æfingunni og heilsuðu upp á þátttakendur. Finnland og Svíþjóð hafa eflt þátttöku sína á vettvangi Atlantshafsbandalagsins að undanförnu, en þátttaka þeirra í Cold Response er jafnframt liður í framkvæmd þríhliða samkomulags Finnlands, Svíþjóðar og Noregs sem undirritað var í september 2020 um að auka hernaðarsamstarf ríkjanna í norðri.
„Við erum ákaflega þakklát fyrir það góða samstarf sem við eigum með vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Æfingar af þessu tagi þjóna mikilvægu hlutverki því þær gera ríkin betur í stakk búin til að verja eigin landsvæði, jafnframt til að koma öðrum til varnar, eins og skuldbindingar 5. greinar Atlantshafssáttmálans gera ráð fyrir,“ segir utanríkisráðherra, sem segir vilja Norðurlandanna standa til þess að efla samstarf þeirra í öryggis- og varnarmálum enn frekar, í ljósi gerbreyttrar stöðu öryggismála.
Cold Response: Upplýsingasíða norska varnarmálaráðuneytisins
Nánar um æfingar á vegum Atlantshafsbandalagsins
Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 á Íslandi