Ríkisendurskoðun
Athugasemdir við eftirlit og starfshættir Fiskistofu
Aðeins um sjálfan mig, ég hef víðtæka reynslu úr stjórnkerfinu og félagsstarfi. Verið; alþingismaður, sveitarstjórnarmaður um árabil, setið í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera auk þess að hafa starfað á vegum íþróttahreyfingarinnar.
Ég hef verið framkvæmdastjóri fyrir opinbert eftirlit á vegum sveitarfélaga um áratugaskeið og sótt mér menntun á sviði opinberrar stjórnsýslu til Háskóla Íslands. Sömuleiðis hef ég nokkra þekkingu á innviðum sjávárútvegs og hef reynt fyrir mér í fiskvinnslu fyrir margt löngu og geri út strandveiðibát með félaga mínum, mér til heilsubótar.
I ) Eftirlitsstofnun hins opinbera stuðlar að lögbrotum!
Í kafla 5, í upplýsandi skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá desember 2018, er fjallað með ítarlegum hætti um lausatök Fiskistofu á lögbundnu eftirliti með samþjöppun veiðiheimilda. Í þeim glefsum sem birtast í skýrslunni af svörum stjórnenda Fiskistofu, kemur berlega fram viljaleysi til þess að láta reyna á skýran vilja löggjafans, um að koma í veg fyrir samþjöppun aflaheimilda, umfram það sem lög leyfa.
Það sem ég tel fulla ástæðu til þess að vekja athygli Ríkisendurskoðunar á, er að Fiskistofa og reyndar Byggðastofnunu einnig, taka virkan þátt í að úthluta til þeirra sem þegar eru komnir upp fyrir kvótaþakið, viðbótaraflaheimildum, í gegnum byggðapotta. Sjá hér að neðan tengil á svör við nýlegum fyrirspurnum Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur (Vg).
Hvernig sem á það er litið þá getur það engan veginn talist ásættanlegt að eftirlitsstofnun stuðli athugasemdalaust að frekari brotum á þeim lögum sem stofnuninni ber að framfylgja, sbr. 13. gr. laga 116/2006.
II) Fátt sem bendir til breytinga
Það er augljóst að megnið af þeim afla sem rennur fram hjá kerfinu gerir það í gegnum; endurvigtun, heimavigtun og nýtingatölur frystiskipa, þ.e. hjá þeim stærri í greininni. Það er fjallað um þessa þætti með skilmerkilegum hætti í 3. kafla í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Augljóslega ætti ábyrg eftirlitsstofnun að einbeita sér að þessum þáttum í starfsemi sinni þ.e. stærstu og veigamestu brotalömunum og ná betri tökum á þeim; með þeim tækjum sem stofnunin býr yfir, með tillögum um frekari úrræði og umræðu um mikilvægi þess að reglum sé breytt ef þörf er talin á því.
Í umsögn Fiskistofustjóra dags. 15. mars sl. um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar, er ekki að finna neinar raunverulegar tillögur til þess að koma á móts við alvarlegar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Það er ekki einu sinni að finna athugasemd við að ef frumvarpið verður að lögum, þá verða dagsektir nánast táknræn aðgerð gagnvart stærri aðilum í greininni, þar sem hámark þeirra, er sett við eina og hálfa milljón kr.
III) Fiskistofa í samkrulli með stórútgerðinni?
Á sama tíma og Fiskistofa telur sig ekki hafa lagaheimildir til þess að taka á skýrum lagaheimildum um kvótaþakið og gerir lítið til þess að fá því breytt, þá er farið út á ystu nöf til þess að því virðist, að klekkja á þeim smáu í greininni, með því gera þeim erfitt fyrir og óþarflega kostnaðarsamt að skila inn gögnum.
Þann 2. mars 2022, var tilkynning sett á heimasíðu Fiskistofu, þar sem annars vegar kom fram að Fiskistofa væri hætt að útvega afladagbækur og reka stafrænt aflaskráningarforrit og hins vegar upplýsingar um að öllum væri frjálst að skrifa forrit sem getur skilað aflaupplýsingum til Fiskistofu! Þessi tilkynning var send með svo skömmum fyrirvara að það var vart á færi þeirra sem njóta þjónustu Fiskistofu að bregðast við, en frestur var gefinn til 1. apríl 2022.
Í þriðja lagi auglýsti Fiskistofa ákveðið forrit hjá fyrirtækinu Trackwell, þar sem hægt væri að færa inn aflaskráningu og sem sendir til Fiskistofu þær upplýsingar sem færðar eru inn í forritið. Þegar verðskrá Trackwell var skoðuð, þá mátti ætla að árlegur kostnaður smábáts yrði hátt í tífaldur á við frystitogara. Ýmislegt virðist benda til þess að Trackwell forritið sem Fiskistofa ætlaði nánast að þvinga smábáta í viðskipti við, væri í nánum tengslum eða eigu þeirra útgerða sem komin eru upp fyrir kvótaþakið!
Eftir að Fiskistofu var bent hve vafasöm þessi stjórnsýsla væri og að hún væri ekki í samræmi við 15. og 17. gr. laga um stjórn fiskveiða 116/2006, þá opnaði stofnunin á þann möguleika að skila inn afladagbók beint í gegnum vefþjónustu Fiskistofu, en lagði jafnframt á það viðbótarkostnað m.a. í nafni úrvinnslugjalds.
Forsendur þess gjalds hafa verið harðlega gagnrýndar m.a. af Magnúsi Jónssyn fyrrverandi Veðurstofustjóra, enda engin dæmi um að athugunarmenn vísindagagna hafi þurft að greiða fyrir skil og úrvinnslu gagna. Ef gjaldið sem stofnunin leggur á skilin og úrvinnslu þeirra er skoðað, þá kemur í ljós kostnaður þess er sambærilegur og ef smábátasjómenn tækju í gagnið forrit Trackwell ehf.
Rökstuðningur fyrir þessari gjaldtöku hefur ekki enn verið lagður fram, en í fljótu bragði virðist hann helst ganga út á að greiða fyrir markaðssetningu Trackwell-forritsins.
Samantekið þá virðist sem skýrsla Ríkisendurskoðunar frá áriniu 2018 hafi ekki leitt af sér breytingar á þeim þáttum sem gerðar voru athugasemdir við. Það er full ástæða fyrir Ríkisendurskoðun og jafnvel ráðherra að kanna nánar forgangsröðun Fiskistofu og sömuleiðis sérkennilegt samráð eða samstarf Fiskistofu og Trackwell ehf.
Sigurjón Þórðarson, stjórnarmaður í Drangey og Strandveiðifélagi Íslands