Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók í morgun á móti Dr. Najat Maalla M´jid, sérlegum sendifulltrúa aðalritara Sameinuðu Þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, en hún er stödd hér á landi í opinberri heimsókn í boði ráðherra. Dr. M´jid hefur haft mikinn áhuga á þeim breytingum sem mennta- og barnamálaráðherra hefur verið að vinna að á umhverfi barna hér á landi og komið að þeirri vinnu sem ráðgjafi.
Dr. Najat Maalla M´jid er barnalæknir með meistaragráðu í mannréttindum og hefur lengi verið viðloðandi málefni barna. Hún var meðal annars sérlegur fulltrúi Sameinuðu Þjóðanna um barnaþrælkun, barnavændi og barnaklám frá 2008-2014. Þá situr hún í stjórn nokkurra alþjóðasamtaka sem berjast fyrir réttindum barna. Dr. M´jid var skipuð sérlegur sendifulltrúi aðalritara Sameinuðu Þjóðanna um ofbeldi gegn börnum þann 1. júlí 2019.
Heimsóknin stendur yfir í alls þrjá daga og mun Dr. M´jid funda með fjölda hérlendra aðila þar sem hún mun ræða baráttuna gegn ofbeldi gegn börnum og endurskoðun á umhverfi barna hér á landi.
Dr. Najat Maalla M´jid:
Ísland hefur tekið stór og djörf skref til að efla velferð, vernd og valdeflingu allra barna. Samþykkt löggjafar um farsæld barna er ekki bara rétt forgangsröðun, heldur traust fjárfesting sem mun skila miklum ávinningi fyrir börn, fjölskyldur og samfélagið allt. Það er ánægjulegt að treysta langvarandi samstarf mitt við Ísland með heimsókn til landsins og mun ég halda áfram að veita fullan stuðning og dreifa og segja frá þessari nálgun sem víðast.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:
Það er mikill fengur að fá Dr. M´jid í opinbera heimsókn hingað til lands til þess að ræða um aðgerðir fyrir börn, en hún hefur verið ómetanlegur stuðningur í þeim kerfisbreytingum sem við höfum verið að innleiða hér á landi undanfarin ár á umhverfi barna. Rödd Dr. M´jid hefur mikla reynslu á alþjóðavettvangi þegar kemur að málefnum barna og ég hlakka til að funda með henni og kynna hana fyrir þeim breytingum sem við erum að innleiða hér á landi.